141. löggjafarþing — 103. fundur,  14. mars 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[19:30]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hafði einmitt séð að meiri hlutinn hafði tekið þetta, ég gleymdi bara að geta þess og biðst forláts á því. Engu að síður skiptir það öllu máli þegar við erum að velta fyrir okkur hvort verið sé að takmarka skipulagsvald sveitarfélaga miðað við skipulagslögin sem eru ekki mjög gömul og er nokkur sátt um. Á til að mynda sú framkvæmdaáætlun að renna inn í aðalskipulag sveitarfélaga án þess að þau hafi nokkuð um það að segja? Í aðdraganda þess að menn setja slíka áætlun ætti slíkt samráð að hafa verið búið. Sú hefur því miður ekki verið reyndin á yfirstandandi kjörtímabili. Menn hafa farið gegn vilja landeigenda, gegn vilja sveitarfélaga og reynt að friðlýsa gegn vilja þessara aðila. Eiga þeir síðan að sætta sig við að troða því inn í aðalskipulag sem þeir eru búnir að eyða ómældum tíma í á íbúa- og kynningarfundum? Þau hafa alla íbúana með sér í þeirri vinnu og þá kemur einhver ákvörðun frá hæstv. ráðherra, í þessu tilviki þingsályktunartillaga þingsins, og stoppar það. Ég held að þetta þurfi aðeins að skoða betur.

Varðandi slóðana þekki ég þessa sameiginlegu vinnu sem ýmsir komu að, Umhverfisstofnun, sveitarfélögin, 4x4 og ég man ekki hverjir fleiri en það komu fleiri aðilar að, til að mynda í sveitarfélaginu Hrunamannahreppi og nokkrum sveitarfélögum á Suðurlandi þar sem þetta byrjaði. Áþjánin er þar talsverð af þessari auknu umferð mjög margra á vélknúnum farartækjum, bæði innlendra sem erlendra. Aðalatriðið var að til var fullt af slóðum sem menn þekkja og þeir vildu ekki setja neina slóða inn á kort nema þá sem þeir ætluðu að nota til framtíðar. Hinir slóðarnir eru sannarlega til og björgunarfólk, t.d. liðsmenn björgunarsveitanna sem búa á viðkomandi svæði, þekkir það og er staðkunnugt. Það getur verið ein leið að hafa þetta í kortagrunninum þannig að björgunarsveitirnar hafi einhvern aðgang að slíku (Forseti hringir.) en ég vara við því að þetta sé gefið út í almennum kortum.