141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

tekjuskattur.

680. mál
[11:31]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er alls ekki uppgjöf gagnvart lífeyrissjóðunum. Ég hef áður farið yfir að sama hvað gerist þá erum við í viðræðum við þá sem eru jákvæðar núna og ég vona að þær skili okkur niðurstöðu innan skamms. Uppgjöf gagnvart lífeyrissjóðunum er þetta svo sannarlega ekki vegna þess að sama hvaða niðurstöðu við náum með þeim þá nær hún ekki til ársins 2012 og það er það ár sem við erum að ræða hér. Við erum að mæta þessum hópi fyrir það að á árinu 2012 hafi höfuðstóll lána þeirra verið hærri heldur en annarra sem fengið hafa leiðréttingar. Það er það sem verið er að gera hér, þannig að uppgjöf er þetta alls ekki.

Ég og hv. þingmaður og fleiri hér inni ættum að fara að taka alvöru umræðu um það hvers lags lán standa ungu fólki hér á landi til boða til þess að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Við þekkjum hvernig gengislánin fóru, við vitum hvernig verðtryggðu lánin virka þar sem höfuðstóllinn bólgnar út og svo er núna verið að bjóða óverðtryggð lán með tilheyrandi óvissu um hvaða vaxtakostnað menn muni bera frá mánuði til mánaðar, með breytilegum vöxtum inn í framtíðina. Þetta er ekki beysin framtíðarsýn fyrir unga fólkið hér á landi. Við skulum ræða rót vandans hér inni sem er gjaldmiðillinn. (Gripið fram í.) Förum að ræða hann. (Forseti hringir.) Það er held ég eitthvað sem við skuldum fólkinu í (Forseti hringir.) landinu, hættum að tala alltaf um yfirborðið og afleiðingarnar.