141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

tekjuskattur.

680. mál
[11:32]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Eins þakkarvert og það er að hér sé komið mál á dagskrá sem varðar heimilin er það um leið viðurkenning á úrræðaleysi stjórnvalda þegar kemur að málefnum heimilanna, uppgjöf þeirra og kannski skortur á raunverulegum vilja, kjarki eða þor til að standa með heimilunum. Það sýnir sig líka að málið kemur hér fram á allra síðustu dögum þingsins, á þeim degi sem við áttum að ljúka málum hér. Ég hefði talið að ef raunverulegur vilji hefði verið að baki hefði málið átt að vera komið fram fyrir löngu síðan.

Fyrst þeir ráðherrar sem verið hafa með þennan málaflokk sitja hér þá erum við ekki enn farin að sjá frumvarp um almenn lög um fasteignalán. Enn á ný er ætlunin að rætt verði mál, sem er á dagskrá seinna í dag, varðandi neytendalánin. Þar eru fasteignalánin enn undir en í vinnu efnahags- og viðskiptanefndar hefur margítrekað komið fram að það er á margan máta óhentugt að setja fasteignalán undir sömu lög og eiga að fjalla um almenn neytendalán, raunar samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins, til dæmis eins og þegar við förum í Elko og kaupum okkur þvottavél eða hrærivél. Þá er líka verið að setja þar undir stærstu einstöku fjárfestingu hvers einasta heimilis sem er kaup á húsnæði. Það er frekar holur hljómur í þeim málflutningi þegar hæstv. ráðherra kemur hér og segir að við ættum að ræða hvernig við getum komið á almennilegu húsnæðislánakerfi á Íslandi því að við erum búin að kalla eftir því ítrekað að fá frumvarp þess efnis í þingið. Mig minnir að það hafi verið á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar að leggja slíkt mál fram á þessu þingi. Einnig má benda á að það er töluvert síðan að stjórnvöld gerðu sér grein fyrir því að breyta þyrfti lagaumhverfi Íbúðalánasjóðs, að taka þyrfti á stöðu Íbúðalánasjóðs, en við erum ekki farin að gera það heldur er það bara látið rúlla áfram eins og undanfarin ár og ekki er tekið á vanda sjóðsins. Það er kannski stundum auðveldara að stinga höfðinu í sandinn.

Það kom síðan fram í andsvörum við hæstv. ráðherra, þar sem ég spurði út í nokkur atriði hvað þetta mál varðar, að það var alveg ljóst að hér er verið að ákvarða vaxtabætur, ekki er um að ræða að greiða inn á höfuðstól lánsins. Þetta er einskiptisaðgerð þannig að við munum hugsanlega standa aftur frammi fyrir því á næsta þingi að leggja til sambærilegt ákvæði, sérstakar vaxtabætur handa þessum hópi. Þegar kemur síðan að vinnu frumvarpsins um neytendalán er ekki komið í veg fyrir það með þeim lögum að áfram sé hægt að fá lánsveð til kaupa á húsnæði. Að vísu hafa fjármálafyrirtækin sjálf hafnað því að lántakendur eða húsnæðiskaupendur fái þessi veð að láni í ljósi reynslunnar, en það er ekkert í lögunum sem mun koma í veg fyrir það. Það er einmitt sérstaklega tekið fram að þó að lántaki uppfylli augljóslega ekki skilyrði lánshæfis- og greiðslumats eigi hann að geta fengið lán ef hann getur komið með önnur veð. Ekki er því verið að taka á þeim vanda til framtíðar, það er bara verið að plástra hann.

Í ljósi þess fór hér aðeins fram umræða um afturvirkni varðandi breytingar á verðtryggingunni. Ég hef töluverðar áhyggjur af því að þó að menn mundu taka þá skynsamlegu ákvörðun, eins og ætti að vera undir eðlilegum kringumstæðum í eðlilegu umhverfi, að borga vaxtabætur inn á fasteignaveðlán, þá mundu þær hverfa mjög fljótt í þeim vaxtavöxtum eða því fyrirkomulagi sem er á núverandi verðtryggingu þrátt fyrir að gerðar hafi verið athugasemdir við það um hvort lagastoð væri fyrir þeirri framkvæmd.

Ég vil benda á nokkur atriði sem ég held að sé mikilvægt fyrir hæstv. ráðherra alla vega að kynna sér áður en hún fer að fullyrða um hluti sem hún virðist ekki hafa kannað. Í fyrsta lagi hefur vísitölunni verið breytt að minnsta kosti tvisvar sinnum. Það liggur fyrir að Alþingi hefur heimild til þess að breyta samsetningu vísitölunnar. Það hefur verið gert. Látið hefur verið á það reyna og það hefur verið staðfest að við höfum fulla heimild til þess að breyta samsetningu vísitölunnar. Enginn á Íslandi er búinn að gleyma því að hægt var að afnema verðtrygginguna á launum hér án þess að eitthvað væri kvartað yfir því varðandi afturvirkni eða eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Það var bara nokkuð sem Alþingi gat gert. Þar var um framvirka breytingu að ræða.

Alþingi hefur líka gert annað, það hefur sett þak á hækkun verðbóta á húsnæðislán. Það hefur verið gert, (Gripið fram í.) þannig að það eru til mýmörg dæmi um að kröfueigendur eigi ekki kröfu á hugsanlega verðbólgu í framtíðinni. Það er nokkuð sem ég tel að menn ættu að geta staðið fastir á og látið reyna á. Þeir ættu einhvern tímann að standa með heimilunum í staðinn fyrir fjármagninu. Það er einmitt dæmi um að menn hafa ekki haft kjark í sér til þess að láta á það reyna gagnvart lífeyrissjóðunum hvort fullyrðingar þeirra standist um að þeir hafi engar samfélagslegar skyldur gagnvart þeim sem þeir veittu lán, að taka á vanda þeirra og taka þátt í því verkefni að ráða fram úr skuldavanda heimilanna. Er það svo að þeir einir geti verið stikkfríir?

Ég efast stórlega um að nokkur hafi gagnrýnt það. Ég vil minna á að hér voru sett lög um að kröfur á ábyrgðarmenn ættu að falla við greiðsluaðlögun. Það var einu sinni fellt í Hæstarétti en það var látið á það reyna. Af hverju er það ekki líka gert hér, hæstv. ráðherra? Af hverju hefur hæstv. ráðherra ekki kjark til þess að láta á það reyna hvort fullyrðingar þeirra standist um að þeir geti raunverulega sagst vera stikkfríir varðandi verðtrygginguna? Eiga menn hugsanlega kröfu á að það verði áframhaldandi verðbólga á Íslandi?