141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

tekjuskattur.

680. mál
[12:21]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta svar við spurningu minni um hámarkið. Það er rétt sem hæstv. ráðherra segir varðandi umræðuna um verðtrygginguna. Við erum ekki að taka hana nógu djúpt og við áttum okkur ekki á því, alla vega ekki sumir flokkar, að það að banna eina leiðina mun hafa ákveðin áhrif.

Ég held að við í þessum sal eigum það sammerkt að markmið okkar sé að skapa þau skilyrði að hér verði hægt að veita sambærileg lán og nágrannaþjóðir okkar veita þannig að vextir séu sanngjarnir til langs tíma án verðtryggingar. Ég held að það sé nokkuð sem alla langar afskaplega mikið. En ég tel að á meðan við erum að ná þeim tökum á efnahagsstjórninni sem þörf er á til að við uppfyllum Maastricht-skilyrðin þurfi fólk að hafa val. Ég held að hjá því verði ekki komist. Það sem verðtryggðu lánin hafa þó gert er að þau eru til langs tíma og dreifa greiðslubyrðinni, áföllunum og sveiflunum yfir langan tíma sem þýðir að mörgum sem geta keypt eigið húsnæði er gert það kleift með þessu kerfi.

Ef normið verður orðið þannig að allir séu með óverðtryggð lán þá verðum við með kerfi þar sem erfitt verður að kaupa fyrstu íbúð. Við þurfum að ræða það. Hvernig á fólk að fara að því þegar það sér ekki fram á að geta dreift greiðslubyrðinni yfir svo langan tíma með áhrifum verðtryggingarinnar á sveiflurnar? Við höfum lagt fram tillögu um að auðvelda fólki fyrstu íbúðarkaup með skattalegum hvötum þar sem það getur sparað og þegar einstaklingar ná að leggja fyrir í gegnum skattalega hvata sjá þeir fram á að ná að leggja fram fyrstu útborgun. Það er hugmynd sem við höfum lagt fram og er okkar stefna. Ég hef ekki séð aðra flokka koma fram með tillögu sem miðar að því að auðvelda fólki fyrstu íbúðarkaup í því nýja umhverfi sem markaðurinn er að þróast í en allir virðast þeir kalla eftir að nálgast þennan hóp. Ég held að það sé mikilvægt að við tökum líka umræðu um það.