141. löggjafarþing — 104. fundur,  15. mars 2013.

neytendalán.

220. mál
[15:29]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er náttúrlega von mín að með þessu sé verið að ítreka enn frekar við lánveitendur mikilvægi þess að þeir vandi sig við lánshæfis- og greiðslumat, þeir geri sér grein fyrir þeim möguleika að hægt sé að ógilda samningana. Þetta gæti hugsanlega líka styrkt stöðu neytenda varðandi skaðabótarétt að einhverju leyti. Ég verð hins vegar að segja að ég hefði talið að nefndin hefði þurft að skoða þetta miklu betur. Ég nefndi sérstaklega í ræðu minni, mig minnir að hv. þingmaður hafi einmitt verið í salnum þegar ég ræddi þetta, mikilvægi þess að við mundum skoða hvað það þýðir ef menn standast ekki lánshæfis- eða greiðslumat en fá samt sem áður peninginn lánaðan. Ég reyndi að kalla eftir því að fá gesti fyrir nefndina en því miður gekk það ekki eftir og við gátum ekki skoðað þetta eins vel og ég hefði talið að við hefðum þurft að gera. Meiri hluti nefndarinnar komst að þeirri niðurstöðu að halda sig við það orðalag sem var fyrir og lögskýringargögnin sem dómstólar geta byggt á verða væntanlega byggð á grunni þeirra athugasemda sem fylgdu frumvarpinu í upphafi.

En ég tel þetta samt svo mikilvægt og ítreka að ég er mjög ósátt við að þetta skuli vera skilið eftir svona í lausu lofti og menn vísa bara til þess að þetta sé einkaréttur, menn verði bara að reyna að fá sinn rétt fyrir dómstólum. Við vitum að það kostar peninga að höfða mál og það getur verið mjög dýrt. Og jafnvel þótt menn hafi verið með niðurstöðu frá Neytendastofu og úrskurðarnefnd hefur það síðan ekki breytt neinu varðandi viðskipti þeirra við fjármálafyrirtækin. Breytingartillagan er viðleitni til að bæta úr þessu.

Ég hefði helst viljað að við hefðum skoðað þetta miklu betur í nefndinni því það er mjög stórt atriði hvað gerist þegar menn fara ekki að þessum lagabálki í heildina.