141. löggjafarþing — 105. fundur,  16. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[10:00]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frumvarp til laga um breytingu á lögum um opinbera háskóla. Þeir skólar sem falla undir tilvonandi lög eru Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Landbúnaðarháskóli Íslands og Hólaskóli — Háskólinn á Hólum, en þeir eru, eins og flestir vita, opinberir háskólar og lúta yfirstjórn ráðherra. Háskólinn í Reykjavík og Háskólinn á Bifröst munu ekki falla undir lögin vegna þess að þeir lúta öðrum áherslum og um þá gilda önnur lög.

Forsaga málsins er sú að í júní 2010 gaf mennta- og menningarmálaráðuneytið út stefnu um hvernig staðinn yrði vörður um starfsemi þessa opinberu háskóla til að fylgja eftir þeirri stefnu sem mörkuð var í ágúst 2011. Komið var á fót samstarfsnefnd og samstarfsneti opinberu háskólanna, svokölluðu háskólaneti. Markmiðið með samstarfsneti opinberu háskólanna er þríþætt. Í fyrsta lagi hefur það það hlutverk að efla háskólakennslu, rannsóknir og nýsköpun til styrktar framtíðaruppbyggingu íslensks samfélags, í öðru lagi að hagræða í rekstri háskólanna þannig að fjármunir nýtist sem allra best og í þriðja lagi að halda uppi öflugri og fjölbreyttri háskólastarfsemi víðs vegar um landið.

Þetta er um tveggja ára verkefni. Góður árangur hefur orðið af því samstarfi sem opinberir háskólar hafa haft með sér og hefur það nú leitt til þess að nú er nauðsynlegt að setja ákvæði um samstarfsnetið í lög. Um það fjallar þetta mál.

Að auki er í frumvarpinu mælt fyrir um með hvaða hætti samstarfið skuli þróast og hvernig samþætta eigi stoðþjónustu, stjórnun, kennslu og rannsóknir opinberu háskólanna til framtíðar. Síðan er gert ráð fyrir heimild ráðherra til að setja verkefnamálefni háskóla er varða stoðþjónustu, innritun, nám og námsframboð.

Helsti kostur þess er að nemendum verði tryggð tiltekin samræming í þjónustu og námsframboði skólanna. Það mun að öllum líkindum leiða til þess að námsframboð skólanna verði fjölbreyttara.

Ég er frekar hlynnt frumvarpinu. Ég tel það til mikilla bóta vegna þess að þarna nýtist í fyrsta lagi vel hið opinbera fé sem fer til skólanna þegar starfið er samþætt með þessum hætti í því sem kallað er í frumvarpinu háskólanet. Þarna á fé, orka eða þekking ekki að fara til spillis þegar samhæft er með þessum hætti og tel ég það mjög mikilvægt því að við höfum tekið upp þá stefnu sem ríki að hafa háskólana dreifða um landið. Ég er hlynnt því fyrirkomulagi í stað þess að hafa bara tvo stóra háskóla á höfuðborgarsvæðinu. Í Danmörku er það þannig að þrír öflugir skólar eru í Kaupmannahöfn og svo er öðruvísi fyrirkomulag úti á landi.

Ég tel þetta fyrirkomulag gott fyrir byggðaþróun. Ég tel að sú stefna sem rekin er hér á landi varðandi háskólana sé til þess fallin að styrkja samfélögin þar sem þessir skólar eru. Við getum nefnt Háskólann á Akureyri. Hann hefur sýnt sig og sannað og er öflugur skóli. Byggð á Akureyri hefur þróast í jákvæða átt frá því að skólinn var stofnaður og búa núna fleiri hundruð manns á Akureyri vegna háskólanáms síns þar.

Sama má segja um Háskólann á Hólum sem fellur undir frumvarpið. Komið hefur fólk fyrir hv. menntamálanefnd með umkvartanir, skulum við segja. Það er ekki á eitt sátt um hvernig þessu skuli hagað. Fram kemur í nefndaráliti með frumvarpinu frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar að gagnrýnt hafi verið að ekki hafi verið gert ráð fyrir formlegu utanumhaldi um búfræði og garðyrkjunám hjá Landbúnaðarháskóla Íslands. Búvísinda- og náttúruvísindin eru ekki þarna á meðal en undirflokkar búvísinda og náttúruvísinda eru búfræði, hestafræði, náttúru- og umhverfisvísindi, skógfræði, landgræðslufræði og umhverfisskipulag. Nefndin telur sig hafa fengið upplýsingar um að skólinn hafi fullt frelsi til að þróa áfram námsskipulag og námsframboð innan þessara sviða.

Jafnframt hefur komið fram gagnrýni á að starfsmenntun sé ekki skilgreind, en eitt af lykilverkefnum Landbúnaðarháskólans, m.a. í tengslum við búfræði- og garðyrkjunám, er að hún sé skilgreind með þessum hætti.

Mikil sóknarfæri eru í háskólum landsins þegar við lítum á þá framtíðarsýn sem Framsóknarflokkurinn hefur. Þá vísa ég til stóraukinna umsvifa á norðurslóðum, en Háskólinn á Akureyri er einmitt með deild sem fæst við heimskautarétt, norðurslóðaverkefni og annað sem er afar brýnt á þeim tímamótum sem við stöndum nú á sem þjóð, svo við tölum nú ekki um þau réttarsvið sem kennd eru við Háskólann á Akureyri og lúta að þessu svæði.

Sama máli gegnir um Landbúnaðarháskóla Íslands. Þar fer fram mikið og öflugt starf og að því ber að hlúa til framtíðar því að framtíðarspár á heimsvísu benda til þess að ekki verði nægjanlegt landrými í heiminum til að fæða þær hundruð milljóna manna sem búa í heiminum. Þess vegna verðum við að vera vel í stakk búin til þess sem þjóð að verða helst sjálfbær varðandi matvælaframleiðslu okkar og er landbúnaðarháskólinn afar mikilvægur hlekkur í þeirri keðju.

Rétt er að minnast á það vegna þess að ég fjalla hér um landbúnaðarháskólann, að hv. þm. Ásmundur Einar Daðason hefur lagt fram þingsályktunartillögu ásamt fleiri þingmönnum Framsóknarflokksins um að stefnt verði að því að matvælalandið Ísland verði að raunveruleika og að við getum orðið sjálfbær með öll okkar matvæli. Það er algjör nauðsyn að mínu mati, fyrir utan það hvað það væri gjaldeyrissparandi ef við gætum verið algjörlega sjálfbær um öll okkar matvæli sem hægt er að framleiða hér. Þá á ég að sjálfsögðu við bæði í jurtaríkinu og dýraríkinu.

Fólk er farið að átta sig á því að þetta er stefnan sem við ættum að taka upp og verðum að taka upp, sér í lagi vegna þess að útlitið í Evrópusambandinu er ekki mjög girnilegt nú um stundir og virðist ekki verða það til framtíðar, því miður. Auðvitað eigum við að vera sjálfbær á því sviði. Til viðbótar höfum við náttúrlega allan fiskinn í sjónum sem við getum nýtt til neyslu innan lands.

Fram kemur í nefndarálitinu á bls. 2 að hv. allsherjar- og menntamálanefnd hafi jafnframt verið bent á mikilvægi þess að í landbúnaðarháskólanum yrði áfram lögð áhersla á rannsóknir og tengsl við atvinnulíf. Áréttað var að í samningi skólans við ráðuneytið er fjallað um að Landbúnaðarháskóli Íslands vinni að vísindarannsóknum, þróunarstörfum og öflun og miðlun þekkingar á framangreindum fræðasviðum með áherslu á nýsköpun og öflug tengsl við atvinnulífið.

Mikilvægt er að einnig séu góð tengsl við ráðuneyti sem tengjast fræðasviðum skólans og atvinnulíf og hagsmunasamtök. Einnig kom fram fyrir nefndinni að mennta- og menningarmálaráðuneytið hafi gert ráð fyrir að kalla til fulltrúa ráðuneyta sem tengjast fræðasviði skólans og hagsmunaaðila þegar fjallað er um stefnumótun, viðfangsefni og tengsl skólanna við atvinnulíf á samráðsfundum skólans og ráðuneytisins. Fyrirkomulagið á að tryggja víðtækt samráð og aðkomu hagsmunaaðila við stefnumótun skólanna. Það er afar jákvætt skref því að segja má að sé ekkert atvinnulíf án öflugra háskóla og eins má segja að ekki sé hægt að reka hér öfluga háskóla nema að hafa öflugt atvinnulíf.

Því er afar mikilvægt að þessir þættir spili saman og að upplýsingarnar séu til staðar þannig að flæðið þarna á milli sé sem best til þess að við getum markað okkur þá nauðsynlegu framtíðarsýn sem við viljum sjá, þ.e. hvernig við viljum sjá Ísland til framtíðar.

Fyrst ég tala um norðurslóðaáherslur Háskólans á Akureyri er rétt að hafa í huga að nú þegar hefur verið hafin olíuleit á okkar vegum. Það er einmitt markmiðið með þessari deild Háskólans á Akureyri að kenna þau réttarsvið er lúta að öllu því sem við kemur Norðurpólnum, auðlindarétti og öðru. Það er því afar áhugavert starf sem fram fer í Háskólanum á Akureyri, að öðrum ólöstuðum. (Gripið fram í.)

Hér er einnig átt við Háskóla Íslands. Háskóli Íslands hefur mikilvægu hlutverki að gegna vegna þess að gerð er sú krafa á hann að hann útvíkki sig frekar og bjóði upp á sem flestar námsgreinar á meðan minni háskólarnir geta sérhæft sig meira. Sú gleðilega þróun hefur orðið að þeir háskólar sem eru úti á landsbyggðinni hafa sérhæft sig í ákveðnum efnum og er það vel. Ég tel að það sé þjóðhagslega hagkvæmt að háskólarnir reyni að skipta þessu þannig á milli sín að hver sérhæfi sig í ákveðinni grein. Það var gott skref sem tekið var þegar sú stefnumótunarvinna fór af stað fyrir margt löngu. Þetta er því afar heppilegt að mínu mati.

Fram kemur á bls. 3 í nefndarálitinu að fyrir nefndinni hafi verið lögð áhersla á að gripið yrði til aðgerða til að tryggja viðveru menntafólks á Íslandi eftir útskrift og koma í veg fyrir að það flytti til útlanda eftir nám og að skapa ætti hvata til að fólkið flytti aftur til Íslands eftir nám erlendis. Segja má að þetta sé hreinlega stefna Framsóknarflokksins því að við erum nýbúin að halda flokksþing okkar. Þar var einmitt lögð þung áhersla á þessi atriði. En það er ekkert ókeypis, eins og við vitum. Flestir þeir sem stunda háskólanám taka námslán. Til þess að virðisaukinn af þeim lánum skili sér sem best í íslenskt þjóðarbú verður atvinnulífið að sjálfsögðu að bregðast við og bjóða upp á þau tækifæri sem væntingar standa til hjá þeim sem stunda háskólanám. Atvinnulífið tekur á móti þessum einstaklingum að námi loknu og því er mikilvægt að þetta spili vel saman.

Við verðum líka að gera Ísland eftirsóknarvert og samkeppnishæft til þess að taka á móti því fólki sem velur að stunda nám í útlöndum. Það velur það á eigin forsendum og velur sér jafnvel sérnám sem ekki er kennt hér á landi þannig að við verðum að sýna það þor og þann dug að bjóða upp á góð atvinnutækifæri að námi loknu, hvort sem fólk fer í háskólanám hér á landi eða í útlöndum, því að þá er virðisaukinn sem mestur í kerfinu.

Jafnframt var lagt til við nefndina að allur beinn kostnaður sem hlytist af námi Íslendinga hérlendis og erlendis yrði gerður frádráttarbær frá tekjuskattsstofni í tvö til þrjú framtalsár eftir námslok. Var þeim sjónarmiðum komið á framfæri að með því að gera vissa kostnaðarliði í námi stúdenta frádráttarbæra frá skattstofni mundi hið opinbera og skattkerfið stuðla að því að námsmenn skiluðu sér á íslenskan vinnumarkað að námi loknu.

Skattafslátturinn mundi laða sérfræðimenntaða Íslendinga aftur til landsins. Þá var nefndinni kynnt að svipað kerfi væri þegar til staðar t.d. í Bandaríkjunum, Ástralíu, Þýskalandi og á Nýja-Sjálandi.

Virðulegi forseti. Þarna er um afar spennandi kost að ræða. Þessar hugmyndir má einnig finna í flokksþingssamþykktum Framsóknarflokksins. Eins og LÍN er byggður upp núna skilar sér ekki nema rúmur helmingur aftur til sjóðsins af því sem lánað er út. Fulltrúar LÍN kalla það náttúrulegar afskriftir, en með því að fara þá leið að hafa skattaniðurfellingu eða afslátt af námi, ljúki námsmaður námi á réttum tíma, er það alveg á hreinu hverjir fá niðurfellingu lána, það er ekki happa og glappa. Náttúrulegar afskriftir, eins og það er kallað hjá LÍN, eru gerðar t.d. við dauðsfall eða í þeim tilfellum þegar fólk greiðir ekki, þ.e. eftir ábyrgðarkerfinu var breytt. Það er einnig gert þegar eldra fólk fer í háskólanám og tekur námslán. Þá hefur það ekki tækifæri til þess að borga upp lánin vegna aldurs.

Ég tel því að umræðan sem farin er af stað varðandi afskriftir eða afslátt á námslánum verði háværari á næstu árum. Það er nokkuð sem við þurfum að horfast í augu við, sér í lagi vegna þess að LÍN hefur sýnt fram á að nú þegar eru miklar afskriftir hjá sjóðnum. Ef þetta skref verður tekið, annaðhvort í formi skattafsláttur eða beinna afskrifta af lánum, ljúki fólk á réttum tíma, erum við framsóknarmenn afar opnir gagnvart því og munum styðja það. Það segir sig sjálft að ef einhver hvati fyrir hendi til þess að fólk ljúki háskólanámi á réttum tíma hefur slíkt í för með sér þjóðhagslegan ábata. Viðkomandi einstaklingur getur farið fyrr út í atvinnulífið, hann fer vinna fyrir sér og skapar í leiðinni skatttekjur sem ríkissjóður á að sjálfsögðu hagnast á og getur notað í ýmis uppbyggingarverkefni.

Þannig er staðan í málinu. Lagt er til að frumvarpið verði samþykkt með lítils háttar breytingu. Ég sé því ekkert til fyrirstöðu að hægt sé að styðja það að mestu leyti þegar búið verður að skoða ítarlega ábendingarnar varðandi landbúnaðarháskólann, hvort sé hægt að koma því fyrir með einhverjum öðrum hætti. En það verður líklega rætt hér áfram í dag vilji menn gera einhverjar breytingartillögur á því sviði. Þetta er fyrst og fremst léttvæg gagnrýni að mínu mati, en samt má landbúnaðarháskólinn ekki sitja eftir því að hér er verið að tala um að ekki sé gert ráð fyrir formlegu utanumhaldi um búfræði og garðyrkjunám hjá Landbúnaðarháskóla Íslands. Það er vert að skoða sérstaklega í ljósi þess að þetta eru þær tvær mikilvægustu námsbrautirnar varðandi framtíðarsýnina Matvælalandið Ísland. Það mætti alveg stórauka þar inn í, því að verði þær hugmyndir að veruleika að við Íslendingar förum að rækta matjurtir undir gleri í stórum stíl, og þá vísa ég t.d. til hugmynda varðandi garðyrkjuver uppi á Hellisheiði þar sem heita vatnið og koltvísýringurinn verður notaður til tómataframleiðslu, verðum við að sjálfsögðu að hlúa vel að þeim þáttum í landbúnaðarnáminu, þ.e. búfræði og garðyrkjunámi.

Virðulegi forseti. Við Íslendingar eigum ótal tækifæri á þessu sviði þannig að að þessu verður að huga. Það kemur líklega í hlut nefndarinnar að taka ákvörðun um hvort gera eigi þessum sviðum hærra undir höfði í frumvarpinu. Ég sit ekki í menntamálanefnd þannig að ég er ekki búin að mynda mér skoðun á því, en ég bendi á að þetta eru tvær öflugustu framtíðarbúgreinar okkar og að þeim verður að hlúa eins og öðru háskólanámi.

Virðulegi forseti. Ég lýk hér máli mínu og tel frumvarpið vera mjög til bóta, sérstaklega í ljósi þess að þarna er verið að leggja til að stofna net til þess að samhæfa bæði vinnuafl og fjármagn og auka samráð á milli skólanna þannig að það verði sem minnstir ágallar á því. Því ber að fagna.