141. löggjafarþing — 105. fundur,  16. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[13:27]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Einar K. Guðfinnssyni fyrir svarið. Það kemur fram í nefndarálitinu að Landbúnaðarháskóli Íslands starfi samkvæmt lögum um háskóla, nr. 63/2006, og reglum um viðurkenningu háskóla, nr. 1067/2006, og að hann hafði verið viðurkenndur á þeim grunni á tveimur fræðasviðum og undirflokkum, þ.e. á sviði búvísinda og náttúruvísinda. Svo kemur fram að undirflokkar þess eru búfræði, hestafræði, náttúru- og umhverfisvísindi, skógfræði, landgræðslufræði og umhverfisskipulag. Þarna er um stóra og mikilvæga málaflokka að ræða og að mínu mati mjög mikilvæga hvað varðar framtíðarsýn okkar sem þjóðar því þarna er t.d. verið að kenna hestafræði og við þekkjum ásókn útlendinga í íslenska hestinn.

Svo má ekki gleyma náttúru- og umhverfisvísindunum, sem við höfum horft mikið til í umhverfisvernd hér á landi, eða skógfræði og landgræðslufræði. Þetta eru allt mjög mikilvægir málaflokkar sem byggja raunverulega á þeirri framtíðarsýn sem kannski er samkomulag hjá þjóðinni um að einbeita sér að. Þess vegna er mjög skrýtið að lagt skuli vera til í frumvarpinu að þeir skólar séu ekki nema að litlu leyti undir því námsneti.

Mig langar til að spyrja þingmanninn hvernig hann sér landbúnaðarháskólana til framtíðar, miðað við það sem kemur fram í frumvarpinu, eins og málum er háttað núna. Sér hann fram á að fljótlega þurfi að gera lagabreytingu á ný eða hvernig lítur þingmaðurinn á málið til framtíðar?