141. löggjafarþing — 105. fundur,  16. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[13:29]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Kjarni málsins er einmitt sá sem hv. þingmaður fór svo vel yfir áðan þegar hún listaði upp það fjölbreytilega nám sem á sér stað núna á vettvangi bæði Hólaskóla – Háskólans á Hólum og Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri. Við sjáum af því að námið hefur verið að þróast með mjög áhugaverðum hætti og það er líka gaman að nefna að nemendur í þeim skólum koma alls staðar að af landinu og ekki bara það heldur víða að úr heiminum, einfaldlega vegna þess að nemendurnir vita að þarna geta þeir sótt sér gott nám. Það er auðvitað þannig að í vaxandi þéttbýli í landinu þurfa skólarnir að geta sótt sér nemendur mjög víða að, m.a. úr þéttbýlinu og það er ekki síður fólk úr þéttbýli sem kemur í háskólana á mörgum sviðum, umhverfissviðum, hestabrautum, ferðamálabrautum o.s.frv., eins og við þekkjum.

Skólarnir eru líka að útskrifa á öðrum brautum sem gagnast ekki bara til búfræðslunnar heldur á mörgum öðrum sviðum. Í raun og veru hefur lagaumhverfið sem við höfum í dag ekki verið hamlandi fyrir skólana. Það sem hefur fyrst og fremst hamlað þróun skólanna tveggja á Hólum og á Hvanneyri er að þeim hefur verið mjög þröngur fjárhagslegur stakkur skorinn.

Ég ætla taka dæmi af Hólaskóla. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu eftir 2. umr. í haust var gengið þannig frá málum að skólinn átti að fá fjármuni sem í raun hefðu dugað til að halda úti starfsemi til 1. október á þessu ári. Það var alveg ljóst mál af hálfu stjórnenda skólans að ef niðurstaðan hefði verið sú hefði það haft mikil áhrif, m.a. þau að sennilega yrðu ekki teknir inn nýir nemendur. Á síðustu stundu, með miklu harðfylgi heimamanna, skólanna og þingmanna og ekki síst stjórnarandstöðunnar, tókst að breyta því svo að í raun og veru var fjárhagnum borgið út þetta árið. Það sýnir að vandi skólans hefur ekki verið lagaumhverfið heldur skilningsleysi núverandi ríkisstjórnar á starfsemi þeirra.