141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

neytendalán.

220. mál
[11:31]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Með þessari breytingartillögu er reynt, af veikum mætti skal þó viðurkennast, að bregðast við þeirri stöðu sem hefur birst okkur á síðustu mánuðum og árum þegar komið hefur að gengistryggingardómunum. Hvað gerist þegar ekki hefur verið farið að þeim réttarreglum og þeim lögum sem eru til staðar þegar kemur að einkamálum, lögum sem við höfum sett til þess að vernda neytendur? Þetta virðist ekki vera nægilega skýrt í lögum. Það er fyrst og fremst verið að byggja á dómaframkvæmd. Ég hafði óskað eftir því við meðferð málsins að við mundum skoða þetta sérstaklega. Því miður var það ekki gert nægilega vel að mínu mati. Þetta er eitt af því sem er mjög nauðsynlegt að sú nefnd sem er að vinna að neytendavernd á fjármálamarkaði skoði eða þá reynslu sem er komin nú þegar af dómum í gengistryggingarmálunum, skoði hvort við þurfum að gera breytingar á lögum sem varða samningarétt og kröfurétt almennt þannig að við getum í raun og veru tryggt vernd neytenda þegar kemur að þessum stærstu einstöku fjárfestingum (Forseti hringir.) hverrar manneskju.