141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

dagskrá fundarins.

[13:49]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Þetta er sama kexið og vant er. Menn móast við að fara í efnislega umræðu um hlutina, hengja sig í umbúðir, form, dagskrá og fundarstjórn forseta. Ef menn gæfu sér tíma til þess að ræða tillöguna sjálfa og kynna sér umræðuefnið, til að mynda það nefndarálit sem fyrir liggur í dagskrármálinu sem hér bíður þess að komast til umræðu, gætu menn sannfært sig um það að nefndin gerir einmitt ekki tillögu um að þar verði um bráðabirgðaákvæði að ræða eða ákvæði um stundarsakir heldur þvert á móti að ákvæðið verði fest í stjórnarskrá sem ný grein, 80. gr.

Það er nöturlegt að menn skuli ekki aðeins koma í pontu og segja að það komi ekki til greina að ræða þessi mál, það verði að stöðva þessa umræðu og hætta þessu rugli, heldur bætir nú einn hv. þingmaður um betur og vænir annan þingmann um stjórnarskrárbrot í formi breytingartillögu. Það tel ég með ólíkindum, frú forseti.