141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[14:37]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Fyrst í tilefni af síðustu orðum hv. þm. Magnúsar Orra Schrams velti ég fyrir mér hvort honum sé ekki kunnugt um að boðað hefur verið til alþingiskosninga 27. apríl, þingstörfum átti samkvæmt starfsáætlun að ljúka á föstudaginn og tíminn til þess að vinna að hvaða breytingartillögu sem er er augljóslega knappur.

Varðandi málið og stöðu þess að öðru leyti held ég að í ræðu hv. þm. Magnúsar Orra Schrams hafi í sjálfu sér komið alveg skýrt fram það sama og ég ætlaði að segja, málið er í uppnámi. Málið er í uppnámi af ýmsum sökum. Staðan er óljós. Enn geta komið breytingartillögur af ýmsu tagi sem geta breytt gangi málsins í hina og þessa áttina. Ég velti því þess vegna fyrir mér hvort það hafi verið skynsamlegt hjá hv. þingmönnum Samfylkingarinnar að leggja ofurkapp á það að málið kæmi til umræðu hér í dag þegar staða málsins er jafnóljós og um er að ræða.

Ég ætlaði líka að nefna að það eru svo sem engin tíðindi að þetta mál sé í uppnámi. Ég er þeirrar skoðunar að það hafi verið það um langt skeið, einfaldlega vegna þess að mjög snemma í ferlinu láðist mönnum að gæta þess að vinna stjórnarskrárbreytingar í sem víðtækastri sátt. Það hefur sett mark sitt á ferlið að svo mörgu leyti. Það hefur gert það að verkum að umgjörðin, formið, ferlið sem slíkt hefur verið mjög umdeilt, margir þættir í því. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um það, ég hef gert það við önnur tækifæri í þinginu, en held hins vegar að mönnum sé hollt að hafa það í huga.

Við minnumst deilnanna í sambandi við stjórnlagaráðið og tilurð þess. Þær deilur voru ekki að tilefnislausu. Auðvitað höfðu þær áhrif. Við minnumst þess líka hvaða deilur áttu sér til dæmis stað vegna þeirrar þjóðaratkvæðagreiðslu sem boðað var til hér á síðasta ári. Við minnumst þess. Ég geri ráð fyrir því að hv. þm. Magnús Orri Schram og aðrir þeir sem eru hér í þessum sal minnist þess að það var gagnrýnt mjög harðlega hvernig að þeirri atkvæðagreiðslu var staðið, hvernig spurningar voru orðaðar, hvernig fyrirkomulag og formið var, einfaldlega vegna þess að menn höfðu af því áhyggjur eins og síðar hefur komið á daginn að framsetningin gæti leitt til þess að hver túlkaði með sínum hætti það sem út úr því kom.

Tökum dæmi í því sambandi af auðlindaákvæðinu. Í tillögum stjórnlagaráðs var spurt: „Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?“

Frá stjórnlagaráði var ákveðinn texti um hvert ákvæði fyrir sig. Sumir túlkuðu það þannig að sérstaklega væri verið að spyrja um þetta atriði. Aðrir túlkuðu það þannig að þetta væri miklu almennari spurning.

Svo var á öðrum stað á atkvæðaseðlinum spurt: „Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign?“

Það er miklu almennara og opnara en það tiltekna ákvæði sem var að finna í tillögum stjórnlagaráðs. Svarið við þeirri spurningu var mjög eindregið jákvætt af hálfu þeirra sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunni. Var verið að spyrja um sama atriði og stjórnlagaráð setti fram? Var verið að spyrja um framsetningu stjórnlagaráðs í þeirri spurningu? Nei, ég held ekki, en ýmsir hafa viljað túlka það svo. Menn hafa sagt sem svo að fyrst þetta hafi verið í tillögum stjórnlagaráðs um auðlindir og fyrst spurt var á öðrum stað í könnuninni um það hvort menn vildu ákvæði um þjóðareign á auðlindum hafi menn verið að segja já við því ákvæði sem kom frá stjórnlagaráði. En auðvitað var það ekki svo. Það stenst enga skoðun þegar málið er sett fram með þeim hætti, enda hefði þá verið spurt um ákvæði stjórnlagaráðs konkret eins og það lá fyrir, en ekki notað almennara orðalag eins og þarna var gert. Um þetta voru fjölmörg dæmi, hæstv. forseti. Þetta var galli á þessari þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég var þeirrar skoðunar og er enn þeirrar skoðunar að hún hafi ekki uppfyllt nein lágmarksskilyrði um það hvernig þjóðaratkvæðagreiðslur eiga að vera. Ég fer ekki ofan af því, það er afstaða mín í þessu.

Bara til að útskýra fyrir hv. þm. Magnúsi Orra Schram og öðrum sem hér hafa talað hefur það legið skýrt fyrir af minni hálfu alveg frá upphafi að ég teldi mig á engan hátt bundinn af þessari þjóðaratkvæðagreiðslu. Það að höfða til mín á þeim forsendum að ég verði sem þingmaður að fylgja þeim vilja sem birtist í þessari tilteknu atkvæðagreiðslu hrífur því miður ekki vegna þess að það hefur alltaf legið fyrir að ég mundi taka afstöðu til allra tillagna hvað varðar feril stjórnarskrármálsins á grundvelli sannfæringar minnar en ekki á grundvelli gallaðrar óbindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Menn geta verið ósammála mér eða sammála en þessi afstaða mín hefur alltaf legið fyrir.

Það leiðir hugann að öðru atriði þessa máls sem ég ætla nú að afgreiða í fáum orðum vegna þess að við eigum eftir að ræða við annað tækifæri þá þingsályktunartillögu sem fylgdi með frumvarpi formannanna þriggja. Ég ætla ekkert að eyða ræðutíma mínum núna í að fjalla efnislega um hana, ég vildi hins vegar segja að ég tel hana ótæka eins og hún er. Ég tel að hún sé ekki forsvaranleg. Ég held að hún gangi í raun út á það að reyna að binda hendur komandi þings sem ég get ekki fallist á. Ég tel ekki rétt að þetta þing sem er að renna sitt skeið á enda reyni að gefa næsta þingi sem verður öðruvísi samsett, trúlega allt öðruvísi samsett en það sem nú situr, einhver fyrirmæli um hvernig það hagi framhaldi þessa máls. Formenn stjórnmálaflokka hefðu hver fyrir sig getað gefið einhverjar yfirlýsingar í þessu sambandi ef þeir hefðu komið sér saman um eitthvert orðalag í því, en þingsályktunartillaga af þessu tagi er algjörlega marklaus að mínu mati. Ég ætla ekki að eyða fleiri orðum í það, við getum tekið það til umræðu þegar þingsályktunartillagan kemur á dagskrá.

Varðandi efni þingmálsins sem hér liggur fyrir verð ég að segja að frá upphafi hefur verið um það sjálfstæð umræða hvort ástæða væri til þess að gera breytingar á breytingarákvæði stjórnarskrárinnar. Hafa ýmis sjónarmið verið uppi um það. Ég hef sjálfur tekið þátt í og staðið að tillöguflutningi í þeim efnum á undanförnum árum, eins og hv. þm. Magnús Orri Schram hefur vísað til. Við 1. umr. um þetta mál gat ég þess hins vegar að reynsla síðustu missira hefur gert það að verkum að ég er orðinn enn þá íhaldssamari og varkárari í þessu sambandi en ég var. Ég tel að reynslan af þeim atvikum sem átt hafa sér stað í aðdraganda þeirra stjórnarskrárbreytinga sem núverandi ríkisstjórn hefur lagt áherslu á hafi gefið tilefni til þess að fara afar varlega í það hvernig breytt er ákvæðum sem varða sérstaklega breytingar á stjórnarskrá. Ég tel einfaldlega að reynslan núna frá, má segja, vordögum 2009 gefi okkur tilefni til að gæta þess vel að þannig sé staðið að breytingarákvæði stjórnarskrár að tvennt sé mjög vel tryggt, annars vegar að stjórnarskrárbreytingar séu ekki gerðar nema að vandlega íhuguðu máli, þ.e. það sé ákveðinn tímaþáttur innbyggður í þau ákvæði sem þar um ræðir, og hins vegar að þar inni séu ákvæði sem séu til þess fallin að stuðla að sem víðtækastri samstöðu.

Ég lét þá skoðun í ljós við 1. umr. um þetta mál að ég teldi að þessir varnaglar, ef við getum kallað það svo, væru ekki nægilega vel tryggðir eins og tillaga formannanna þriggja leit út. Ég get þess vegna ekki annað en fallist á að breytingartillagan sem lögð er fram af hálfu meiri hlutans í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd um þetta atriði sé til bóta. Ákvæðið eins og það kemur frá meiri hlutanum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd er miklu nær afstöðu minni í þessum málum en tillaga formannanna eins og hún kom upphaflega fram. Það er ríkari samstöðukrafa sem birtist í því að gerð er krafa um að 2/3 þings samþykki stjórnarskrárbreytingu og síðan er komið inn atriði sem ég hef lagt töluvert mikla áherslu á í umfjöllun um þetta mál, að það sé einhvers konar samþykkisþröskuldur, ákveðin útfærsla á þátttökuþröskuldi. Þarna er gert ráð fyrir að það þurfi að lágmarki 25% kosningarbærra manna til að samþykkja stjórnarskrárbreytingu, þó auðvitað alltaf meiri hluta þeirra sem taka þátt í atkvæðagreiðslunni. Það er vissulega til mikilla bóta frá því sem áður var að sjá slíkt ákvæði þarna inni. Með því móti er lágmarkstrygging fyrir því að það er ekki lítill minni hluti sem getur tekið ákvörðun um stjórnarskrárbreytingu í krafti hugsanlega áhugaleysis alls almennings um stjórnarskrárbreytingar. Ég held að það sé ekki óeðlilegt að gera kröfu til þess að stjórnarskrá sé ekki breytt nema það sé þokkalegur áhugi í þjóðfélaginu á því, ekki bara áhugi hjá einhverjum litlum hópi heldur áhugi hjá fjöldanum. Það er ekkert óeðlilegt að gera þá kröfu.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal lagði fram tillögu í haust, og raunar áður líka, þar sem fyrirkomulagið er með svipuðum hætti og hér er að finna, nema bara krafan um samþykki er töluvert ríkari en hér. Þá má velta fyrir sér hvort rétt sé að gera þá kröfu að helmingur kosningarbærra manna segi já. Ég held hins vegar að það mætti vissulega setja mörkin hærra en þau 25% sem hér er að finna.

Ég ítreka að auðvitað hefur það áhrif á afstöðu mína hvernig atgangurinn í sambandi við stjórnarskrána hefur verið síðustu fjögur árin, gerir mig miklu varfærnari en ég var fyrir fjórum árum. Hv. þingmönnum er auðvitað kunnugt um að ég hef verið mjög ósáttur við mjög mörg skref sem stigin hafa verið í þessu máli. Þess vegna hljóta hv. þingmenn að hafa skilning á því að ég vilji fara varlega í þessu sambandi þótt þeir séu ekki sammála mér.

En ég tek fram, hæstv. forseti, að breytingarákvæðið er ólíkt skárra eins og það kemur frá meiri hlutanum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd en sú útfærsla sem finna mátti í tillögu formannanna þriggja, upphaflegu frumvarpi sem hér til umræðu.

Ég er þeirrar skoðunar að það sé út af fyrir sig óheppilegt, þótt það sé ekki óþekkt, að fleiri en ein leið til að breyta stjórnarskrá séu í gildi á sama tíma. Ég verð að játa að mér líst illa á þá hugmynd. Ef tillaga meiri hlutans í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd nær fram að ganga verður um það að ræða að þingið eða þeir sem leggja fram frumvörp til breytinga á stjórnarskrá geta farið tvær mismunandi leiðir í því sambandi, annars vegar þá leið sem nú er fyrir hendi, þ.e. að eitt þing samþykkir stjórnarskrárbreytingu, efnt er til kosninga og nýtt þing samþykkir breytinguna óbreytta, og svo hins vegar nýju leiðina sem hér hefur verið gert ráð fyrir, þ.e. 2/3 á þingi, meiri hluti í þjóðaratkvæðagreiðslu, þó minnst 25 af hundraði allra kosningarbærra manna.

Ég játa, og það hefur komið fram í umfjöllun í nefndinni, að það er ekki óþekkt í öðrum stjórnarskrám að til séu tvær mismunandi leiðir. Ég verð hins vegar að segja, hæstv. forseti, að ég hef af því nokkrar áhyggjur að þetta verði dálítið ruglingslegt og það geti verið svolítið undir hælinn lagt hvora leiðina menn velji. Afstaða mín er sú að það sé miklu heppilegra að á hverjum tíma sé bara ein skýr leið í gildi varðandi stjórnarskrárbreytingar.

Þetta vildi ég sagt hafa, hæstv. forseti, vegna þess að þetta er atriði sem mér finnst skipta máli. Mér finnst það fela í sér ákveðna hættu á ruglingi og óskýrleika ef mismunandi leiðir eru fyrir hendi. Auðvitað veit ég að í tillögunni er gert ráð fyrir að það sé tekið skýrt fram þegar mál kemur fram hvor leiðin verði fyrir valinu, sú gamla eða sú nýja, en ég hef nokkrar áhyggjur af því að þetta geti orðið dálítið ruglingslegt í framkvæmd og dálítið tilviljanakennt, jafnvel geðþótta- eða handahófskennt, hvaða leið verði fyrir valinu hverju sinni. Ég verð að segja það, hæstv. forseti, að mér líst ekki á þennan þátt útfærslunnar.

Varðandi tímaþáttinn í tillögunni er rétt að í gömlum hugmyndum sem ég átti aðild að frá því fyrir fjórum árum um nýtt breytingarákvæði var gert ráð fyrir tímafrestunarþætti eða tímafrestandi skilyrðum í sambandi við málsmeðferð í þinginu. Gert var ráð fyrir að mál fengi fjórar umræður í þinginu en ekki þrjár og að ákveðinn tími liði milli umræðna. Hér er farin önnur leið. Það er ekki lögð sama áhersla á það að málsmeðferð í þinginu taki tíma heldur eru engin skilyrði sett um málsmeðferðartímann í þinginu en þó gert ráð fyrir að það líði sex til níu mánuðir frá því að tillagan hafi verið samþykkt í þinginu. Þetta er út af fyrir sig ágætt. Það má deila um það hvort sex mánuðir og níu mánuðir eru stuttur eða langur tími í þessu sambandi. Ég hefði þó fremur kosið að sjá inni ákvæði um málsmeðferðartíma í þinginu, ég hefði ekki talið það óeðlilegt í ljósi þess að þarna er um mjög mikilvægar breytingar að ræða. Þarna er um að ræða mikilvægari breytingar sem lúta að stjórnarskrá en sem lúta að almennum lagafrumvörpum þannig að mér finnst ekki óeðlilegt að gerð sé ríkari krafa til málsmeðferðar í þinginu varðandi stjórnarskrárbreytingu en almenn lög.

Það er alveg rétt sem fram kom í máli hv. þm. Magnúsar Orra Schrams, framsögumanns meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, áðan um að ýmislegt hefur orðið til þess að setja málið í uppnám umfram það sem ráða má af efni tillagnanna sjálfra. Þar munar töluvert um svokallaða breytingartillögu hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur sem sumir hafa líkt við laumufarþega með málinu en nær væri að kalla laumufarþegaskip vegna þess að það er í rauninni gert ráð fyrir því að heilt stjórnarskrárfrumvarp sé fært inn í tiltölulega afmarkað frumvarp um breytingarákvæði stjórnarskrár í breytingartillöguformi. Þetta breytir svolítið umfjölluninni um þetta mál, færir umfjöllun okkar í þinginu frá því að vera eingöngu umfjöllun um breytingarákvæði sem slíkt eins og það liggur fyrir og víkkar út umræðuna því að ætla má að þegar margir taka afstöðu til breytingartillögu hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur ráðist afstaða þeirra af efnisinnihaldi þeirrar breytingartillögu, þ.e. tillögum úr frumvarpi til breytinga á stjórnarskránni frá liðnu hausti sem síðan tók breytingum hjá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar nú á dögunum. Málið allt er undir í raun og veru. Það má segja að hafi það verið ætlun hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur að útvíkka umræðuna um þetta tiltekna frumvarp, breytingarákvæðið, og kalla inn í þetta umræðu um málið í heild hafi það tekist. Afstaða manns til þessara breytingartillöguáhrifa á málið í heild ræðst ekki síst af því að ýmsir í þinginu hafa lýst yfir stuðningi við innihald þessarar breytingartillögu. Það er svolítil óvissa hvernig fer þegar þetta gengur til atkvæða.

Það má þar af leiðandi segja að allur grundvöllur og forsendur umræðunnar hafi breyst þegar breytingartillaga Margrétar Tryggvadóttur kom fram.

Það verður líka að geta þess svo ég víki aftur að nýframkominni breytingartillögu um auðlindaákvæði að hún breytir auðvitað líka töluvert miklu. Hv. þm. Magnús Orri Schram rakti hér áðan að þær yfirlýsingar hefðu komið frá að minnsta kosti sumum flutningsmanna upphaflega frumvarps formanna ríkisstjórnarflokkanna og Bjartrar framtíðar að þeir ætluðu áfram að leita leiða til þess að ná samstöðu um auðlindaákvæði og ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur. Það er alveg rétt, það heyrðist í umræðunni. Það heyrðist reyndar fleira í umræðunni. Menn voru líka að tala um ákvæði um fullveldisframsal og fleira þess háttar þannig að ekki er hægt að segja að það hafi verið skýrt þegar farið var af stað með málið hver áform formanna ríkisstjórnarflokkanna voru nákvæmlega í þessum efnum. Ég átti hins vegar ekki von á því að það kæmi fram breytingartillaga um nákvæmlega þetta efni nema búið væri að leita einhvers konar samstöðu um útfærslu ákvæðis af þessu tagi. Þetta segi ég af ástæðu.

Við þekkjum það að allir flokkar hafa með einum eða öðrum hætti lýst yfir vilja til þess að taka ákvæði um þjóðareign á auðlindum inn í stjórnarskrá. Hins vegar hafa menn deilt mjög um útfærslu og form, orðalag og framsetningu slíks ákvæðis. Þær deilur hafa ekki verið leiddar til lykta. Ég átti von á því að menn mundu gera að minnsta kosti atrennu að því áður en breytingartillaga kæmi fram um þetta og verð að taka fram að með því að setja þetta frumvarp svona fram hafi formenn þingflokka ríkisstjórnarflokkanna og aðrir tillöguflytjendur svo sem ekki einfaldað stöðuna í málinu.

Þarna er um að ræða viðkvæmt efni. Við höfum séð margar útfærslur af auðlindaákvæði birtast á síðustu mánuðum, svo ekki sé talað um fleiri ár. Ég hygg að þetta sé þriðja eða fjórða útgáfan af auðlindaákvæði sem lögð er fram í þinginu í vetur. Hún er að sumu leyti lík forverum sínum og að sumu leyti frábrugðin. Við þekkjum öll að það var munur á auðlindaákvæði eins og það barst á sínum tíma frá stjórnlagaráði og því ákvæði sem meiri hlutinn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd lagði fram í frumvarpsformi í haust að ráðleggingu sérfræðinganefndar. Þar var töluverður munur á orðalagi. Enn hafa orðið breytingar á orðalagi. Ég verð að játa að á þeim stutta tíma sem er liðinn frá því að ég sá þennan texta hef ég ekki áttað mig á því hvort þetta er sama tillagan og var að finna í tillögu meiri hlutans í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd eða ekki. Mér eru gefin merki um að þetta sé sama versjónin og kom frá meiri hlutanum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Ég verð engu að síður að segja að það hversu margar útgáfur hafa verið í gangi í þessum efnum hefur ekki endilega orðið til þess að einfalda málin.

Þegar menn velta fyrir sér möguleikum á því að ná samstöðu um ákvæði af þessu tagi hlýtur maður að leiða hugann að því hver viðbrögðin urðu þegar þingflokkur framsóknarmanna kom með sína málamiðlunarútgáfu fyrir viku, tíu dögum síðan. Framsóknarflokkurinn hefur, eins og margir aðrir, lagt áherslu á að auðlindaákvæðið væri tekið í stjórnarskrá og kom með útspil fyrir tíu dögum eða tveim vikum þar sem hann hafði útfært ákvæði sem var að miklu leyti byggt á texta frá auðlindanefnd frá árinu 2000. Hvernig voru viðbrögðin við því? Það er ekki hægt að segja að þau hafi verið fagnandi. Þau drög voru gagnrýnd mjög harðlega í þinginu, m.a. og ekki síst af talsmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, en einnig af þingmönnum Samfylkingarinnar. Satt að segja var í tvo eða þrjá daga ráðist mjög harkalega á Framsóknarflokkinn fyrir framsetningu þessa ákvæðis.

Þetta nefni ég bara. Ég er ekkert endilega sammála öllu sem kom fram í útfærslu Framsóknarflokksins en verð þó að segja að það hvað tillaga framsóknarmanna um útfærslu í þessum efnum vakti hörð viðbrögð varð með sínum hætti til þess að gera mig svartsýnni á það að við værum komin á þann stað að geta náð niðurstöðu um þetta efni. Það sýnir hvað framsetningin, orðalag ákvæðanna, útfærslan, getur verið viðkvæm í sambandi við auðlindaákvæði af þessu tagi.

Þess vegna endurtek ég það, hæstv. forseti, að ég hefði talið réttara að menn gerðu atlögu að því að reyna að ná saman um einhvers konar ákvæði af þessu tagi áður en þeir flyttu tillögu í þeim efnum. Auðvitað kann að vera hægt að skapa svigrúm til einhverra viðræðna milli manna meðan á umræðu stendur í þinginu, en ég held að það hefðu verið vitrænni vinnubrögð að leita eftir samráðinu og reyna að komast að einhverri sameiginlegri niðurstöðu, finna frekar sameiginlega fleti á málunum fyrir umræðuna en í henni miðri.

Hæstv. forseti. Ég lýk máli mínu á að segja að ferill þessa stjórnarskrármáls hefur að sönnu verið mjög umdeildur. Það eru mjög mörg atriði í sambandi við stjórnarskrána sem menn vilja breyta en það eru líka mjög mörg atriði sem menn eru ósammála um hvernig eigi að breyta.

Þetta þing er að ljúka störfum. Við sem erum í þessum sal og vorum kjörin til setu á Alþingi vorið 2009 látum nú af störfum. 27. apríl verður nýtt þing kjörið. Ég velti fyrir mér hvort það sé of stór biti að kyngja fyrir þá sem hafa barist fyrir framgangi þessa máls á þinginu að viðurkenna að það hafi ekki tekist, að málið hafi lent í öngstræti fyrir löngu og því verði ekki bjargað úr því öngstræti. Er það of stór biti? Ég velti því fyrir mér. Mér hefur lengi fundist það liggja fyrir að það væri mjög ólíklegt að það tækist að fá botn í þetta, til þess væru skoðanir of skiptar, deilur of miklar.

Nú er bent á að nýkjörið þing geti haft allt aðra afstöðu til þess sem hér er að finna en það sem nú situr. Spurningin er hvaða tilgangi það þjóni þá fyrir hugsanlega lítinn minni hluta á þingi að knýja fram vilja sinn í þessum efnum. Hvaða ávinningur er það? Er það innlegg í kosningabaráttu eða hvað vakir fyrir mönnum?

Við getum sagt að nái sú breyting fram að ganga sem tengist meginefni frumvarpsins, og sleppum þá öðrum atriðum sem blandað hefur verið inn í þetta mál, breytist það fyrst og fremst að ef nýtt þing samþykkir breytingarákvæðið óbreytt verði möguleiki á því að breyta stjórnarskránni á næsta kjörtímabili án þess að rjúfa þing og efna til nýrra kosninga. Það eru hin raunverulegu áhrif þess að þetta þing ljúki við að afgreiða frumvarp formannanna þriggja eins og það liggur fyrir. Ég skil þá breytingartillögurnar eftir fyrir utan þá umræðu.

Ég velti fyrir mér hvort það sé endilega svo mikilvægt. Ég geri mér grein fyrir því að fyrir þá sem eru mjög áhugasamir um að Ísland gangi í Evrópusambandið eru þarna aðkallandi atriði sem varða fullveldisframsal því að það verður ekki gengið í Evrópusambandið nema stjórnarskránni sé breytt áður. Það er kannski vont fyrir þá sem að þessu stefna að bíða í heil fjögur ár með það og blanda því síðan saman við almennar kosningar.

Tilfinning mín er sú að það sé hugsanlega það eina utanaðkomandi sem knýr á um að breytingin sé gerð núna en sé ekki látið í hendur nýs þings að taka afstöðu til þessa máls og framgangs þess. Það kann að vera að fyrir þá sem enn þá trúa því að það séu einhverjar líkur á því að Ísland gangi í Evrópusambandið sé gott að þurfa ekki að bíða í fjögur ár þótt það verði reyndar að hafa í huga að Evrópusambandsferlið hefur allt gengið miklu hægar fyrir sig en nokkur gerði ráð fyrir í upphafi. Engin vissa er fyrir því hvert framhald þess máls verður.

Ég hefði haldið að það væri eðlilegra að taka pressuna af þessu máli, leggja til hliðar stjórnarskrárbreytingar að sinni, láta nýju þingi það eftir að taka afstöðu til þess. Einstök framboð og frambjóðendur í kosningunum í vor hafa verið óspör á yfirlýsingar í sambandi við stjórnarskrármálefni og þá velti ég fyrir mér hvort ekki sé rétt að leyfa kjósendum að velja í því sambandi. Ef kjósendur vilja styðja þá sem leggja mikla áherslu á stjórnarskrárbreytingar eiga þeir þess kost í kosningunum 27. apríl og þá verður það verkefni nýs þings að taka afstöðu til þess hvort og að hvaða leyti eigi að breyta stjórnarskránni. Nýtt þing mun hvort sem er þurfa að taka afstöðu til þess, en spurningin er af hverju við séum að sprengja okkur á endasprettinum í þinginu að berja saman eitthvað, jafnvel reyna að henda á milli okkar einhverjum breytingartillögum síðla kvölds og snemma morguns í önnunum á lokadögum þingsins, í staðinn fyrir að viðurkenna einfaldlega að það verði hvort sem er verkefni nýs þings að ráða þessum málum til lykta.

Það vantar ekki verkefnin á þinginu. Fjöldamörg mál eru á dagskrá í dag og boðað að fleiri mál séu á forgangslista ríkisstjórnar. Mörg af þeim málum eru þess eðlis að það er alveg örugglega hægt að ná ágætri samstöðu um þau, en bæði tíminn og líkurnar á því að hægt sé að ná saman um slík mál minnkar eftir því sem meiri áhersla er lögð á að knýja í gegn þau mál sem ágreiningur er um.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu lengri en ætla að koma nánar inn á aðra þætti síðar í þessari umræðu og vísa til þess að ég tel möguleika á því að menn geti hugsanlega náð saman um einhverjar breytingar í þessum efnum. Hins vegar má segja að líkurnar á því hafi minnkað eftir því sem á hefur liðið. Það er rétt að minna á, hæstv. forseti, að lengi hefur legið liðið fyrir að kosið yrði 27. apríl. Það hefur legið fyrir að þingi yrði hætt um miðjan mars. Í janúar kom það fram af hálfu bæði okkar, fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, og af hálfu fulltrúa Framsóknarflokksins að við teldum miklu skynsamlegra að leggja til hliðar heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar og reyna að einbeita okkur að því að ná samstöðu um fáar tiltölulega afmarkaðar breytingar. Við buðum upp á þetta í lok janúar og reyndar aftur á fundum í byrjun febrúar. Það markaðist af því að við töldum þá tíma til þess að komast að einhverjum niðurstöðum í þessum efnum sem samstaða gæti náðst um. Eftir því sem tíminn hefur liðið hefur saxast á möguleikana í þessu sambandi.

Ég ætla ekkert að útiloka á þessari stundu, hæstv. forseti, en aðstæður til þess að takast á við málin með þeim hætti eru allt aðrar í dag en fyrir tveimur mánuðum, það liggur í augum uppi. Þá var hins vegar afstaða meiri hlutans í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að rétt væri að fara áfram með málið í heild, og miklum tíma og mikilli orku varið til þess. Á meðan saxaðist á svigrúm manna til þess að setjast niður og ræða um afmarkaðar breytingar. Það var alltaf sagt við okkur: Þið getið komið með breytingartillögur ykkar við ákvæðin. Þetta gekk allt út á að setja plástur á frumvarpið sem byggði á heildarendurskoðuninni, setja fleiri plástra á það, þótt við hefðum eins og margoft hefur komið fram hafnað því að það væri réttur og skynsamlegur grundvöllur þessa máls og framgangs þess í þinginu.