141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[15:30]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Að sjálfsögðu er ekkert því til fyrirstöðu að orðalag slíkrar þingsályktunartillögu sé þannig að um hana geti verið breið pólitísk samstaða. Það væri fróðlegt að heyra fá hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins hvað þeir mundu vilja leggja inn í það.

Ég ítreka að þingsályktun er í mínum huga — af því menn hafa verið að tala um það og taka það hver upp á eftir öðrum í umræðu, bæði hér og annars staðar, að þingsályktunin hafi ekkert gildi af því nýtt þing sé kannski annarrar skoðunar — pólitísk yfirlýsing Alþingis. Ef á bak við hana væri breiður stuðningur má segja að meiri líkur væru á að hún mundi halda inn í næsta kjörtímabil. En hugsunin er sú að þetta þing samþykki ályktun um hvernig halda eigi vinnunni áfram, kjósi til þess sérstaka nefnd, þetta þing, og þar með er búið að setja þá vinnu í farveg.

Það er rétt að nýtt þing getur tekið nýja ákvörðun, en stjórnmálaflokkarnir yrðu væntanlega spurðir að því í kosningabaráttu hvort þeir mundu beita sér fyrir (Forseti hringir.) því eða ekki. Það er það sem ég tel líka mikilvægt að fá fram í þessari umræðu.