141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[16:12]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla fyrst að gera athugasemd við seinna andsvar hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur áðan. Ég var alls ekki í andsvari við þingmanninn heldur hv. þm. Birgir Ármannsson. Hún beindi orðum sínum mjög til mín en ég hélt að þingmenn gætu ekki valið við hvern þeir eru í andsvari. Ég vona að forseti taki það til greina svo því verði afstýrt í framtíðinni.

Það kristallaðist mjög í orðum hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur hverjir eiga að ráða för í málinu, það eru vinstri menn. Eins og hv. þm. Birgir Ármannsson fór yfir fór allt á annan endann í síðustu viku þegar við þingmenn Framsóknarflokksins impruðum á því hvernig auðlindaákvæði okkur hugnaðist jafnvel að sjá í nýrri stjórnarskrá. Það virðast nefnilega bara vera hv. þingmenn Vinstri grænna sem mega brúka munn og nota þennan ræðustól til að hella sér yfir aðra þingmenn. Ég minni á að komin er fram breytingartillaga frá hv. þingmönnum, m.a. frá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur, um að auðlindaákvæði vinstri manna komi inn í stjórnarskrána. Viðbrögð þingmanna Framsóknarflokksins hafa ekki verið á sömu leið og þau sem sáust hér í síðustu viku þegar þingmenn Vinstri grænna fóru hreinlega af hjörunum. Það virðist ekki vera sama hverjir tala og hverjir hafa tillögurétt í málinu.

Til að sortera umræðuna er það svo að komin er fram breytingartillaga við frumvarpið sem liggur fyrir þinginu og er til umræðu. Breytingartillagan er frá Margréti Tryggvadóttur og inniheldur frumvarpið sem formenn ríkisstjórnarflokkanna, hæstv. ráðherra Katrín Jakobsdóttir og hv. þm. Árni Páll Árnason, hafa slegið út af borðinu. Brugðið var á það ráð að taka stjórnarskrárfrumvarpið og leggja fram sem breytingartillögu við frumvarpið sem er til umræðu, þ.e. frumvarp um breytingar á breytingarákvæði stjórnarskrárinnar.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að eyða tíma í þá breytingartillögu vegna þess að hún er óþingtæk sem sýnir að strax eftir kosningar þarf að stofna lagaskrifstofu við Alþingi Íslendinga og endurreisa það traust sem allir þurfa að hafa á þinginu svo ekki sé hægt að koma með hvað sem er þangað í formi breytingartillagna eða tillagna sem stríða gegn gildandi lögum og stjórnarskrá.

Í öðru lagi tel ég þá breytingartillögu sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir talaði fyrir áðan, um að auðlindaákvæði komi inn í frumvarpið sem er til umræðu, líka óþingtæka. Það eru hv. þm. Oddný G. Harðardóttir, Álfheiður Ingadóttir, Árni Þór Sigurðsson og Skúli Helgason sem flytja tillöguna.

Virðulegi forseti. Að mínu mati hefði verið ágætt að fá úrskurð, ef það væri einhvers konar lagaráð eða lagaskrifstofa starfandi við þjóðþingið, um að ekki sé hægt að fara fram með breytingar af þessu tagi við frumvarp sem er komið svona langt því að um grunnlögin er að ræða. Það er verið að fjalla um stjórnarskrá Íslands. Þingmenn ríkisstjórnarflokkanna hafa lofsungið að breyta eigi vinnubrögðum á Alþingi og að öll lagasetning eigi að vera á faglegum nótum. Meira að segja hæstv. forsætisráðherra hefur gumað sig af því að hafa lagt fram mál sem eiga að leiða til þess að lagasetning hér á landi verði í lagi.

Því miður hefur margt farið á verri veg í lagasetningu síðan þessi ríkisstjórn tók við. Ég ætla einungis að benda á eitt mál. Það eru hin svokölluðu Árna Páls-lög sem voru sett í þinginu af tæpum meiri hluta ríkisstjórnarflokkanna og varða afturvirkni laga með vaxtaákvörðun. Þau voru dæmd ógild af Hæstarétti. Hvað ræðum við í dag? Frumvarp frá hv. þm. Árna Páli Árnasyni um breytingar á breytingarákvæði stjórnarskrárinnar.

Ég held að þingmenn ættu að fara að taka sér tak, fá ráðgjöf úti í bæ, ef þeir hafa ekki sjálfir þekkingu á því hvernig á að standa að lagasetningu, og reyna að koma málunum á hreint vegna þess að það er ólíðandi að þjóðþingið skuli fara af stað með mál í andstöðu við almenna lagasetningu og stjórnarskrá.

Ég verð aðeins að fara inn á breytingartillöguna um auðlindaákvæðið sem þingmennirnir fjórir sem ég minntist á áðan hafa lagt fram, en hún sýnir að þetta mál er byggt á ófaglegum grunni. Það stendur í aðfaraorðum breytingartillögunnar:

„Á undan 1. gr. komi ný grein, svohljóðandi: Á eftir 78. gr. stjórnarskrárinnar kemur ný grein sem verður 79. gr., svohljóðandi:“

Virðulegi forseti. Með þessari breytingartillögu er verið að leggja til að 79. gr. núgildandi stjórnarskrár sé rutt úr vegi, en hún fjallar um hvernig breyta á stjórnarskránni og jafnframt um kirkjuskipun ríkisins. Ef til vill er þetta prentvilla, ef til vill er þetta þekkingarleysi, ég veit það ekki, en það er komið inn sem breytingartillaga frá fjórum hv. þingmönnum, þeim Oddnýju G. Harðardóttur, Álfheiði Ingadóttur, Árna Þór Sigurðssyni og Skúla Helgasyni.

Virðulegi forseti. Manni ofbjóða algjörlega vinnubrögðin. Ég ætla ekki að fara í að komið er fram yfir starfsáætlun þingsins, en það að koma með svona ófullburða breytingartillögur sem löggilt þingskjal inn í málið þegar komið er fram yfir öll tímamörk eru náttúrlega ekki boðleg vinnubrögð.

Eins og ég sagði áðan er breytingartillagan um auðlindaákvæði vinstri manna ekki þingtæk og því ætla ég ekki að ræða hana meira, ekki frekar en breytingartillögu hv. þm. Margrétar Tryggvadóttur sem hún leggur fram við málið. Það er ekki hægt að taka þær til umræðu.

Við skulum ræða frumvarpið sem liggur fyrir.

Eins og allir vita er ég mjög andsnúin því að það verði gert auðveldara að breyta breytingarákvæði stjórnarskrárinnar. Flestir þeir sérfræðingar sem hafa komið fyrir hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd telja að ákvæðið sem er í 79. gr. sé gott, það haldi mjög vel, komi í veg fyrir glundroða og að einhver pólitísk stefna eða straumar nái að smeygja sér inn í stjórnarskrána. Það hindrar að gerð sé aðför að stjórnarskránni eins og Samfylkingin og Vinstri grænir hafa gert á þessu kjörtímabili. Ákvæðið hefur þann kost að vera sáttaákvæði á þann hátt að það leiðir sjálfkrafa af sér að mikla sátt þarf til að breyta stjórnarskránni, fyrst þarf eitt þing að samþykkja stjórnarskrárbreytingar, boða þarf til kosninga og nýtt þing þarf svo að samþykkja stjórnarskrárbreytingarnar óbreyttar. Þetta er afar gott ákvæði. Það ákvæði í gildandi stjórnarskrá hefur meðal annars leitt til þess að ríkisstjórnarflokkarnir hafa leitað eftir mismunandi stuðningi. Einu sinni voru það þingmenn fyrrverandi Borgarahreyfingarinnar sem studdu ríkisstjórnina varðandi (MT: Hef aldrei stutt ríkisstjórnina.) ákvæðið um að koma öllu frumvarpinu í gegn en nýir formenn stjórnarflokkanna sviku það að sjálfsögðu. Þeir lögðu svo fram þá breytingartillögu sem er til umræðu og fengu nýjan smáflokk í lið með sér, Bjarta framtíð, til að reyna að koma málinu einhvern veginn í höfn. Það sjá allir að málið er löngu fallið á tíma en enn er staðið í áhlaupi á stjórnarskrána.

Þetta ákvæði 79. gr. stjórnarskrárinnar hindrar að áhlaupið geti orðið að veruleika vegna þess að þeir sem telja sig stjórna landinu í dag vita að þeir hafa misst meiri hlutann. Þeir sitja í skjóli mjög lítils kjörfylgis miðað við undanfarnar skoðanakannanir, þótt kjördagur skipti mestu máli, og vita að nýtt þing grípur til þess ráðs að fella frumvarpið þegar búið er að kjósa. Þess vegna er málið komið í þennan hnút og þessi staða komin upp í þinginu. Það er ósætti á milli stjórnarflokkanna sem gerir það að verkum að þingið situr enn þá og gerðar eru örvæntingarfullar tilraunir til að reyna að breyta stjórnarskránni, til að reyna að hanga með litlu flokkunum í þinginu og breyta breytingarákvæðinu.

Það er mjög alvarlegur hlutur. Til að rökstyðja það ætla ég að benda á staðreynd frá Evrópu. Það á að vera erfitt að breyta stjórnarskránni svo ekki sé hægt að gera áhlaup á hana, eins og ég sagði áðan. Það vill þannig til að í Ungverjalandi situr flokkur sem hefur mikinn þingstyrk og hefur yfir að ráða tveimur þriðju þingmanna þingsins. Hvað hefur gerst? Ungverska þingið, sá meiri hluti sem nú situr í ungverska þinginu, hefur fjórum sinnum gert stjórnarskrárbreytingar í krafti meiri hluta síns á þingi á síðustu 14 mánuðum.

Virðulegi forseti. Það er á þeim grunni sem er rökstutt að erfitt eigi að vera að breyta stjórnarskránni, þannig að ekki verði til svo sterkur meiri hluti eins flokks eða tveggja flokka að hann geti tekið sér það vald að breyta stjórnarskránni sisvona. Evrópusambandið hefur gert stórkostlegar athugasemdir við stjórnarskrárbreytingarnar í Ungverjalandi vegna þess að Evrópusambandið telur að verið sé að þrengja að mannréttindum o.s.frv. og þær stríði gegn grunngildum Evrópusambandsins.

Ég hef alltaf staðið fyrir því í þessu stjórnarskrármáli, að það sé hreinlega ekki hægt að taka stjórnarskrána, umbylta henni eftir stefnum, smekk og stemningu sem skapast í þjóðfélaginu.

Það varð bankahrun, eins og allir vita, og þá greip fólk mikil örvænting. Einhverjir fóru af stað og sögðu að við yrðum að breyta stjórnarskránni, það yrði að breyta öllu, en það er akkúrat stjórnarskráin sem hefur lifað þær hremmingar af. Stjórnarskráin sem var í gildi í hremmingunum, og er í gildi í landinu, hefur sannað að hún stóð af sér hrunið. Meira að segja hæstv. utanríkisráðherra, sem er ekki vinur núgildandi stjórnarskrár, hefur viðurkennt að það var stjórnarskráin sem var burðarás í því að sigur náðist í Icesave-málinu. Við skulum ekki gleyma því.

Svona er málið vaxið og þess vegna er ég alfarið á móti því að gera það auðveldara að breyta stjórnarskránni. Sér í lagi í ljósi þess að við sækjum löggjöf okkar að meginhluta til til Norðurlandanna að undanskildum EES-reglugerðum sem við verðum að lögfesta. Það hefur margoft komið fram, bæði hér í þinginu og fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, að miðað við þau ríki sem við berum okkur saman við í stjórnskipunarrétti, sem eru Norðurlöndin, er ákvæðið sem er í gildi í íslensku stjórnarskránni það ákvæði á öllum Norðurlöndunum sem felur í sér auðveldustu breytinguna stjórnarskránni, þ.e. ferlið sem stjórnarskrárbreyting er, frumvarp að stjórnarskipunarlögum er samþykkt á þingi, alþingiskosningar á milli og nýtt þing samþykkir frumvarpið óbreytt. Úr verða stjórnarskipunarlög sem forseti undirritar síðar.

Í Danmörku er það til dæmis þannig að danska þingið þarf fyrst að samþykkja frumvarp til stjórnarskipunarlaga. Þá eru kosningar, nýtt þing þarf að samþykkja frumvarpið óbreytt og svo er þjóðaratkvæðagreiðsla í framhaldinu. Það er því tiltölulega auðvelt að breyta íslensku stjórnarskránni eins og hún er.

Varðandi tillögurnar veit ég að í þessari umferð er þetta frumvarp um breytingargreinina einungis til umræðu. Það hefur líka verið fjallað um þá þingsályktunartillögu sem liggur fyrir þinginu.

Það að leggja eigi fram núna til samþykktar í þinginu tillögu til þingsályktunar um að allir flokkar sem eiga þingmenn á Alþingi skuli tilnefna einn fulltrúa frá hverjum flokki á næsta kjörtímabili til að skila tillögum fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sýnir að málið er að komast í höfn. Ég hef bent á allt þetta kjörtímabil að Alþingi er ekki heimilt að úthýsa stjórnskipunarvaldinu úr þessum sal.

Það hefur orðið gríðarlegur útafakstur í málinu undir handleiðslu þessarar ríkisstjórnar með úthýsingu hér úr þinginu. Það hafa verið leiknir ótal biðleikir sem ég ætla ekki að fara yfir vegna þess að ég hef sagt það áður í ræðum. Ég minnist þess þó sífellt þegar Hæstiréttur, æðsti dómstóll landsins, úrskurðaði kosningar til stjórnlagaþings ógildar, en ríkisstjórnin fór á móti úrskurði æðsta dómstóls landsins og fór fram á við þingmenn meiri hlutans að þau úrslit væru raunverulega ógilt og skipaði þessa fulltrúa sjálf hér í þingsal. Það er náttúrlega hin mesta firra að tala um það á hátíðarstundum að þeir fulltrúar, án þess að ég sé nokkuð að tala niður til þeirra, hafi verið þjóðkjörnir því að það var lítill meiri hluti þingsins sem kaus þá aðila fyrir rest.

Það var mesti útafaksturinn og síðan Hæstiréttur komst að niðurstöðunni á sínum tíma hefur bara sigið á ógæfuhliðina. Þarna átti að sjálfsögðu annaðhvort að hætta við málið og taka það aftur inn í þingið eða fara af stað með aðra atkvæðagreiðslu til að skipa á stjórnlagaþingið. Þá hefði það getað verið til ráðgjafar fyrir ríkisstjórnina en á engan hátt skilað frumvarpsdrögum enda var það aldrei ætlunin. Það hefur verið minnst á skýrsluna sem þingmenn samþykktu 63:0, að hún hafi verið grundvöllurinn að þeirri vinnu sem hefur farið fram á þessu kjörtímabili. Það er ekki annað hægt að hafna því vegna þess í þeirri skýrslu stendur einungis að endurskoða ætti stjórnarskrána en ekki að skrifa nýja.

Það leiðir hugann að því hversu mikið þingmenn halda að sé eftir af þeirri skýrslu sem kom til þingsins þegar er búið að gera um 500 breytingar á bæði texta og greinargerð í henni. Það er náttúrlega harla lítið eftir, virðulegi forseti, enda hafa margir aðilar komið að þeim breytingum sem eru í lokaplagginu sem má finna núna sem breytingartillögu við þetta frumvarp.

Þetta var um þá nefnd. Ég ætla að sýna fram á hversu ótrúlega illa unnið málið er enn þann dag í dag. Það á að vera einhver lokahnykkur, lokaredding þar sem á að reyna binda málið saman og binda smáflokkana sem sitja í þinginu saman og þá er ég að tala um stuðning Hreyfingarinnar og Bjartrar framtíðar við ríkisstjórnarflokkana. Það kemur fram að skipa eigi nefnd og hún á að skila stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis tillögum sínum fyrir 1. október 2013 og stefnt verði að því að heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar verði lokið á 70 ára afmæli lýðveldisins árið 2014, 17. júní 2014. Ofboðslega fallegt markmið en ekki raunhæft. Í fyrsta lagi er enginn að biðja um nýja stjórnarskrá á 70 ára afmæli lýðveldisins því að við erum með stjórnarskrá, lög nr. 33/1944, í gildi og hún hefur staðist vel tímans tönn. Það sem er stefnt að þarna eru einhverjir rómantískir draumar, að einhver gangi eftir Almannagjá og afhendi þjóðinni nýja stjórnarskrá sem byggist á þeirri vinnu.

Virðulegi forseti. Það er einn hængur á sem sýnir hvað málin eru illa unnin af þeim sem eru að reyna að bjarga málunum fyrir horn rétt fyrir kosningar. Núna er komin fram breytingartillaga frá þeim sem snýr að þjóðaratkvæðagreiðslunni. Fyrst var talað um að þjóðaratkvæðagreiðslan ætti að fara fram einum til þremur mánuðum eftir að Alþingi samþykkti lagafrumvarpið en nú er komin fram breytingartillaga í annarri umferð sem segir að minnst sex mánuðir og mest níu mánuðir skuli að líða fram að þjóðaratkvæðagreiðslu um hugsanlegar stjórnarskrárbreytingar sem verða samþykktar í þinginu.

Virðulegi forseti. Því miður er þarna mikill misreikningur því að sex mánaða markið er 1. apríl 2014 og níu mánaða markið er 1. júlí 2014 en lagt er til að þrammað verði með nýja stjórnarskrá á Þingvelli 17. júní 2014. Þingið hefur því ekki nema einn mánuð og 13 daga til að komast í gegnum þrjár umræður um nýja stjórnarskrá sem á svo að steðja með á Þingvelli 17. júní 2014.

Þingmenn eru að leggja fram tillögur sem skarast þannig að önnur ónýtir hina svo málið er að sjálfsögðu sjálfdautt. Ég held að best væri að leggja málið til hliðar og slíta þinginu því að það versnar eftir því sem hv. þingmenn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar reyna að klóra meira í bakkann. Það verður fróðlegt að sjá hvernig flutningsmenn tillagnanna tveggja ætla að rökstyðja það að gefa þinginu einn mánuð og 13 daga til að ljúka störfum sínum við nýja stjórnarskrá, eins og þingmennirnir halda að sé ákall eftir.

Við framsóknarmenn viljum breyta stjórnarskránni, við viljum breyta þeim greinum sem þarf að breyta. Við viljum fá auðlindaákvæði inn í núgildandi stjórnarskrá en því miður er tíminn á þrotum. Það sjá allir. Við biðum með útrétta hönd, í lok janúar buðum við ríkisstjórninni að setjast niður og ganga til samninga um orðalag að auðlindaákvæði en því boði var ekki tekið. Nú er þingstörfum lokið samkvæmt starfsáætlun en við stöndum hér og fólk heldur að enn sé hægt að gera eitthvað í málinu.

Það er sorglegt hvernig meiri hlutinn hefur haldið á málinu vegna þess að það var svo sannarlega tækifæri til að ganga þá leið að setja auðlindaákvæði sem allir gátu sætt sig við inn í stjórnarskrána.

Það sem er einkennilegast og ég botna ekki í er það sem kemur fram í frumvarpinu um að breyta eigi breytingarákvæði stjórnarskrárinnar til að sú vinna sem hefur farið fram á þessu kjörtímabili öðlist líf á næsta kjörtímabili. Þeir sem hafa lesið sér til í stjórnskipunarrétti vita að það ákvæði er til staðar í stjórnarskránni í dag. Þess vegna er frumvarpið enn ein blekkingin, verið er að reyna að bjarga sér út úr erfiðleikunum.

Það er nefnilega svo að Alþingi Íslendinga getur hvenær sem er breytt stjórnarskránni, komist að samkomulagi, skapað víðtæka sátt í þinginu, rofið þing, gengið til kosninga og samþykkt stjórnarskrárbreytingar. Það er ekkert lögmál sem segir að þingið þurfi að sitja fjögur ár og einungis sé hægt að breyta stjórnarskrá á lokaári kjörtímabils. Í núgildandi 79. gr. stendur, virðulegi forseti:

„Tillögur, hvort sem eru til breytinga eða viðauka á stjórnarskrá þessari, má bera upp bæði á reglulegu Alþingi og auka-Alþingi. Nái tillagan samþykki skal rjúfa Alþingi þá þegar og stofna til almennra kosninga af nýju. Samþykki Alþingi ályktunina óbreytta, skal hún staðfest af forseta lýðveldisins, og er hún þá gild stjórnskipunarlög.“

Virðulegi forseti. Þarf það að vera skýrara?

Þegar þetta frumvarp kom fram með breytingarákvæði stjórnarskrárinnar um að auðvelda breytingu á stjórnarskránni var það gagnrýnt mjög og sér í lagi vegna þess að það átti að vera tímabundið og gilda í fjögur ár. 79. gr. núgildandi stjórnarskrár átti að vera í gildi í fjögur ár sem og ákvæði breytingartillagna hv. þm. Árna Páls Árnasonar, hæstv. ráðherra Katrínar Jakobsdóttur og hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar. Það átti að vera hlaðborð fyrir þingmenn í fjögur ár. Hvað gerist í meðförum nefndarinnar? Lagt var til að hafa það ótímabundið.

Það eitt að hafa tvö breytingarákvæði í stjórnarskrá Íslands er algjörlega úr takti við allan norrænan rétt og gengur ekki að mínu mati því að það skapar óvissu. Það gæti skapað upplausn í þinginu ef sífellt er verið að leggja fram frumvörp sem lúta að því að breyta stjórnarskránni. Væri ákvæði hæstv. þm. Árna Páls Árnasonar komið í stjórnarskrána gætum við framsóknarmenn eða ég persónulega sem þingmaður og mikill Evrópusambandsandstæðingur lagt fram tillögu strax í dag, tillögu að breytingu á stjórnarskrá Íslands sem fæli í sér að Ísland mætti ekki undir neinum kringumstæðum ganga í ESB. Tillagan gæti hljóðað svo. Þinginu bæri þá að taka málið til afgreiðslu og fara með það í þjóðaratkvæðagreiðslu ef 2/3 þingmanna samþykktu það. Við skulum alveg átta okkur á því hvað er verið að opna á. Það er ekki bara verið að opna á tillögurnar sem komu núna í frumvarpsformi frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Verði frumvarpið að lögum og fari nýja breytingarákvæðið inn í stjórnarskrána er þingmönnum frjálst að leggja fram allar þær tillögur sem þá lystir sem snerta stjórnskipunarrétt og þeir þurfa kannski ekkert að vera mikið að hugsa um að það séu einhverjar nefndir innan þingsins á milli kosninga sem fjalla sérstaklega um stjórnarskrárbreytingar.

Þetta er staðreyndin og þess vegna er málið afar illa ígrundað og hefur bara versnað eftir það kom í þingið enda eru reddingar aldrei vænlegar til sigurs eða til bóta. Það er nú svo, því miður.

Svona er staðan. Það væri ósk mín, eins og ég sagði áðan, að málinu færi að ljúka, að þeir þingmenn og þeir flokkar sem standa að þessu reddingarmáli játi sig sigraða og viðurkenni að tíminn sé á þrotum. Það sjá náttúrlega allir að málin geta ekki gengið svona lengur. Það er líka orðið ljóst fyrir landsmönnum að það er enginn ágreiningur í þinginu annar en logandi illdeilur um framhald málsins innan Samfylkingarinnar og Vinstri grænna. Það eru logandi illdeilur á milli þeirra sem hafa reynt að koma þessum stjórnarskrárbreytingum í gegn, nú síðast þingmönnum Hreyfingarinnar og þingmönnum Bjartrar framtíðar. Að sjálfsögðu tökum við framsóknarmenn þátt í þeim umræðum en við tökum ekki á nokkurn hátt þátt í málþófi eins og við erum sökum svo oft um, brigslin ganga á milli í þingsal hvað það varðar. Ég lít svo á að mitt hlutverk á þessu kjörtímabili hafi fyrst og fremst verið að bjarga því sem bjargað verður í stjórnarskrármálinu, að standa vörð um núgildandi stjórnarskrá og ekki síður að verjast því áhlaupi sem Samfylkingin og Vinstri grænir, undir stjórn hæstv. forsætisráðherra, hafa staðið fyrir á núgildandi stjórnskipunarrétt.

Mér sýnist allt benda til þess að sú vinna sé að skila sér, að áhlaupið á stjórnarskrá Íslands verði ekki að veruleika. Stjórnarskrárbreytingar á að gera af yfirlögðu ráði með sátt fjöldans en ekki nokkurra. Það hlýtur að koma sá dagur að birta fari til, málið verði tekið af dagskrá og ríkisstjórnarflokkarnir viðurkenni að það nái ekki framgangi. Hvaða vit er í því að fara fram með stjórnarskrárbreytingar að yfirlögðu ráði og fagmennsku á næsta kjörtímabil þegar svo mikið af gögnum liggja fyrir? Það verði skipuð föst nefnd við þingið, stjórnskipunarnefnd, sem hefur það hlutverk að safna saman þeim gögnum sem liggja fyrir. Það þarf hvorki að breyta breytingargrein stjórnarskrárinnar til þess né að samþykkja þingsályktunartillögu sem bindur komandi þing. Það er vilji til þess hjá flestum flokkum sem eru á þinginu að endurskoða stjórnarskrána. Ég get ekki átt aðild að því að skrifa nýja stjórnarskrá vegna þess að sú stjórnarskrá sem er í gildi hefur sannað gildi sitt.

Virðulegi forseti. Ég blæs á þau rök sem komið hafa fram, m.a. frá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur, að eftir fjögur ár, þegar næsta kjörtímabili er að ljúka, verði tillögur stjórnlagaráðs orðið svo gamlar, að þær endist ekki fram að þeim tíma. Stjórnarskrá á að breyta til frambúðar. Stjórnarskrá á að gilda í áratugi en ekki í nokkur ár. Þess vegna falla þau rök algerlega um sjálf sig. Hvort það verður eitthvað eftir af tillögum stjórnlagaráðs þegar þingið hefur farið yfir stjórnarskrármálið á næsta kjörtímabili kemur bara í ljós. En tillögugreinar í stjórnarskrám mega ekki vera svo háðar miklum tískustraumum að þær þoli ekki að bíða í fjögur ár eftir því að komast inn í stjórnarskrá.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.