141. löggjafarþing — 106. fundur,  18. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[16:48]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Magnús Orri Schram) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þeir flokkar sem haldið hafa um stjórnartauminn undanfarin fjögur ár hafa freistað þess að leita að samráði og sátt um hvernig haga beri breytingum á stjórnarskrá. Við höfum margoft í þessum þingsal og á vettvangi nefndanna leitað eftir tillögum annarra stjórnmálaflokka um hvernig haga beri þeirri vinnu sem allir flokkar nema Sjálfstæðisflokkur voru sammála um að ráðast í. Framsóknarflokkur studdi minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna á þeim grundvelli að kosið yrði til stjórnlagaráðs þar sem heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar ætti að fara fram.

Forsenda þess að við teljum gamla breytingarákvæðið vera gott er að stjórnmálaflokkar birti stefnuskrá sína hvað varðar breytingar á stjórnarskrá og standi við hana að loknum kosningum. Það er forsenda þess að fólk geti tekið afstöðu til stjórnmálaflokkanna á grundvelli þeirrar stefnu í stjórnarskrárbreytingum.

Framsóknarflokkurinn sagði skýrt fyrir kosningarnar 2009 að hann vildi skrifa nýja stjórnarskrá, að heildarendurskoðun ætti að fara fram og að stjórnlagaþing ætti að koma að málinu. Hann vildi að minnka til muna aðskilnað milli löggjafar- og framkvæmdarvalds, að ráðherrar gegndu ekki þingmennsku, að heimildir til þjóðaratkvæðagreiðslu yrðu auknar og að oftar yrði leitað beint til þjóðarinnar. Þau lykilatriði eru öll í því plaggi sem verið hefur til umræðu á vettvangi þingsins.

Ég vek á því athygli, virðulegi forseti, að það er skynsamlegt að opna á annað breytingarákvæði sem kallar beint eftir vilja þjóðarinnar. Það getur verið að það sé skynsamlegt að hafa gamla breytingarákvæðið líka í gildi, en gætum að því að þá þurfa stjórnmálaflokkarnir standa við stefnuskrá sína í stjórnarskrármálunum. Framsóknarflokkurinn gerði það ekki á þessu kjörtímabili. (MT: Heyr, heyr.)

Þess vegna er erfitt að treysta nálguninni þegar þingmaðurinn segir: Látum fólkið ráða lyktum stjórnarskrármálsins í beinum alþingiskosningum (Forseti hringir.) vegna þess að flokkurinn hefur ekki staðið við stefnuskrá sína.