141. löggjafarþing — 107. fundur,  19. mars 2013.

störf þingsins.

[11:01]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Aðeins í upphafi um stöðu stjórnarskrármálsins. Ég hvet hv. stjórnarflokka og þá sem hafa dagskrárvaldið á þinginu til að átta sig á því að þetta mál er andvana fætt og mun ekki klárast. Ef þingstörfum á að ljúka hér einhvern tíma fyrir kosningar verða menn að fara að horfast í augu við þá staðreynd.

Mig langar aðeins að ræða um skattkerfið í framhaldi af ræðu hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur sem talaði að vanda fyrir skattahækkunum og sýndi í verki sem fjármálaráðherra að enginn skattur er nógu hár fyrir hv. þingmann. Hún talaði um að þrepaskipt skattkerfi væri til þess fallið að jafna kjör fólks. Þar er að mínu mati grundvallarmisskilningur á ferð. Sjálfstæðisflokkurinn hefur alla tíð lagt áherslu á hófsemd og sanngirni í skattheimtu hins opinbera hvort heldur gagnvart einstaklingum eða fyrirtækjum vegna þess að það er samhengi á milli hagsældar og hófsemdar í opinberum álögum.

Við sjáum það best á stöðu ríkissjóðs núna. Þrátt fyrir að allir skattar sem til eru í landinu hafi verið hækkaðir á þessu kjörtímabili hafa skatttekjur ekki aukist. Skattkerfið á fyrst og síðast að nýtast sem tekjuöflun fyrir ríkissjóð og þar er ég í grundvallaratriðum ósammála hv. þm. Oddnýju Harðardóttur sem telur að nýta eigi það til tekjujöfnunar eða sem neyslustýringarkerfi eins og nýlegar álögur undir heitinu sykurskattur báru vott um hjá hæstv. ríkisstjórn. Skattar mega aldrei verða svo háir að þeir dragi úr verðmætasköpun. Það er nákvæmlega þetta sem ég tel að verði kosið um í vor. Ætlum við að halda áfram á þeirri braut að hafa slíka skattheimtu að það dragi úr verðmætasköpun og krafti í þjóðfélaginu (Forseti hringir.) eða ætlum við að fara af stað í sókn fyrir íslenskt atvinnulíf og íslensk heimili með því að hafa skatta lága, skattkerfið einfalt og þannig að það hvetji en ekki letji íslenskan almenning?