141. löggjafarþing — 108. fundur,  21. mars 2013.

áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2013--2016.

582. mál
[10:56]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Þessi breytingartillaga við breytingartillögu meiri hlutans gengur út á það að í stað ártalsins 2013 í d-lið 1. töluliðar komi ártalið 2011. Með yðar leyfi, virðulegi forseti, gríp ég niður í greinargerðina:

„Lagt er til að áfram verði, líkt og í gildandi áætlun, miðað við að framlög til þróunarsamvinnu verði ekki lægri að raungildi en árið 2011 í stað ársins 2013 eins og lagt er til í breytingartillögu nefndarinnar á þingskjali 1185 og gerir flutningsmaður fyrirvara við þetta atriði í tillögu nefndarinnar. Vísað er til almenns fyrirvara sem lýtur að getu ríkissjóðs til að standa við skuldbindingar sínar í þessum málaflokki á næstu árum, sérstaklega í ljósi annarra skuldbindinga sem um þessar mundir eru að koma í ljós og skýrast.“

Virðulegi forseti. Ég greiði atkvæði með þessari breytingartillögu, ég tel rétt að við sníðum okkur stakk eftir vexti.