141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[11:56]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður getur treyst því að sá sem hér stendur mun beita sér fyrir því að samþykkt verði ákvæði í stjórnarskrá sem fjallar um náttúruauðlindir landsins, eins og hann hefur ítrekað sagt í ræðustól og hvar sem hann hefur komið. Það sem ég hins vegar get ekki samþykkt, og ég vona að hv. þingmaður virði það við mig, er að í þeim tillögum sem nú liggja á borðinu eru breytingar á þeim tillögum sem komu frá stjórnlagaráði. Það má vel vera að sú setning sem hv. þingmaður minntist á sé nákvæmlega eins, en við túlkun á ákvæðinu í heild sinni í náinni framtíð — og það er það sem dómstólar verða að gera — verður að taka mið af samhengi hlutanna. Það verður að taka mið af samhengi þess sem kemur fram í ákvæðinu sjálfu, hvert sé markmið þess og hvaða árangur eigi að nást í kjölfarið. Þess vegna hef ég ítrekað bent á að ef menn ætla að breyta einhverjum orðum eða setningum þarfnist það mjög ítarlegrar og vandaðrar umræðu.

Ég vil taka fram, vegna þess að ég minntist á það áðan, að ég er ekki sammála því að hægt sé með lögum, án þess að einhverjir fyrirvarar séu settir við það eins og þeir að verið sé að vinna að almannahagsmunum eða þá að brýna nauðsyn beri til, eins og á við um önnur stjórnarskrárákvæði, að einhver ríkisstjórn með tiltekinn meiri hluta geti bara ákveðið að takmarka þetta mikilsverða ákvæði. Ég vona að þetta skýri afstöðu mína í þessu máli.