141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

grundvallarskilgreiningar löggæslu á Íslandi og gerð löggæsluáætlunar.

687. mál
[14:24]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Tvö atriði rétt í byrjun. Ég vil draga fram að við í nefndinni ákváðum í ljósi skamms tíma hennar að einbeita okkur frekar að því sem væri raunveruleg leiðsögn og væri til gagns en að fara í djúpa umræðu um mál sem geta kallað á ákveðnar deilur og umræðu, eins og t.d. forvirkar rannsóknarheimildir.

Ég vil hins vegar vekja athygli á því að á bls. 11 segjum við í nefndinni samt að samræma þurfi löggjöf og reglu varðandi rannsóknir mála við hin Norðurlöndin til að tryggja að samstarf íslensku lögreglunnar við erlend lögregluyfirvöld gangi eðlilega fyrir sig o.s.frv. Það er ákveðin leiðsögn

Menn hafa haft einhverjar efasemdir um fækkun lögregluumdæma sem er algjört lykilatriði til þess að við náum því í gegn að efla lögregluna og við drögum fram í nefndinni að þrátt fyrir fækkun umdæma þurfi að tryggja tengsl borgaranna við nærlöggæslu, tryggja þau nánu tengsl sem borgarar kalla eftir. Það er hægt og verður að mínu mati betur hægt með fækkun löggæsluumdæma.

Það er mikilvægt að hafa í huga að við verðum að tryggja jafnræði borgaranna til að njóta löggæslunnar og öðlast þá öryggiskennd sem borgarar í samfélaginu kalla eftir með öflugri lögreglu.

Hæstv. forseti. Að mínu mati undirstrikar umræðan fyrst og fremst hver vilji löggjafarvaldsins er gagnvart lögreglunni og hann er alveg skýr eftir þá umræðu. Vilji löggjafarvaldsins er að við stöndum vörð um lögregluna. Við viljum efla lögregluna til skemmri en ekki síður til lengri tíma litið.

Umræðan, skýrslan er að mínu mati skýr skilaboð og getur verið öflugt tæki fyrir þann sem sest í stól innanríkisráðherra því að sameiginlegt markmið okkar er að styrkja og efla (Forseti hringir.) löggæsluna hér á landi.