141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[16:42]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú skal varast það að túlka hugsanir annarra og ekki ætla ég að gera það. Ég veit þess vegna ekki hvort það er rétt að þetta hafi verið sett fram til þess. Í umræðum í morgun spurði einn hv. þingmaður Samfylkingarinnar hv. varaformann Vinstri grænna um afstöðu eins þingmanns Framsóknarflokksins og er rétt að geta þess að á mánudaginn var kom fram í umræðu um stjórnarskrána, í ræðu í þessum stól, frá formanni Samfylkingarinnar og frá þingflokksformanni Samfylkingarinnar, að þessar tvær tillögur sem komu á sama sólarhringnum frá þessum tveimur forustumönnum Samfylkingarinnar, voru óræddar á milli þessara aðila, hvorugur vissi af hinum. Ég get sagt það hér, vegna þess að ég hlýddi á mál þeirra á mánudaginn.

Það vekur furðu að hægt sé að leggja fram af tveimur forustumönnum sama flokks, sama stjórnarflokks, tvær tillögur. Önnur var þó fyrst og fremst send til umræðu, til að kanna hvort það væri umræðugrundvöllur, en hin var lögð fram sem breytingartillaga.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að í þessari tillögu — síðasta setningin hljómar til að mynda svona:

„Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignar eða óafturkallanlegs forræðis.“

Í tillögu stjórnlagaráðs var talað um fullt gjald og annað í þeim dúr. Þá komu til að mynda fyrir atvinnuveganefnd ýmsir sérfræðingar, þeirra á meðal Magnús Thoroddsen. Þeir sérfræðingar sögðu að á grundvelli þeirrar greinar væri útilokað að úthluta kvóta með félagslegum hætti — byggðakvóti, strandveiðar, línuívilnun, allt mundi fara út af borðinu. Og það er spurning hvort þessi setning um jafnræði geri ekki nákvæmlega það sama, og það hlýtur að kalla á sérfræðiálit áður en menn setja eitthvað slíkt inn sem kollvarpar þeim kerfum sem við höfum verið með.