141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[16:52]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég býst við að það sé rétt hjá hv. þingmanni að hann hafi ekki náð að hlýða á alla ræðu mína og kannski eru einhverjar spurninga hans sprottnar upp úr því. Ég get hins vegar fullyrt við hv. þingmann að ef við ætlum að nota þennan stól til að ná saman um þetta mál voru þau andsvör sem við hv. þm. Pétur H. Blöndal áttum hér saman einmitt til þess fallin því að þau skiluðu talsverðum árangri. Það skiptir máli. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn eru ekki sammála um allt, ekki frekar en Vinstri grænir og Samfylkingin, að ég hélt. Ég hélt til dæmis að Samfylkingin væri jafnaðarmannaflokkur þannig að það hefur komið mér á óvart að samfylkingarmenn hafa gengið nokkuð á svig við það sem ég hélt að væri eðlileg jafnaðarmennska og gengið mun lengra í þá átt.

Ég ætla að nefna ástæðuna fyrir því. Hér er komið í dularbúningi inn í þingið frumvarp um breytingar á vatnalögum, það sem hefur verið kölluð samræming (Gripið fram í: Já.) en snýr að grundvallarbreytingum á eignarrétti. Einn okkar helsti sérfræðingur í landinu hefur sagt: Það er klárlega stjórnarskrárbrot og það er klárlega grundvallarbreyting sem hér á að eiga sér stað með litlu frumvarpi sem átti að lauma í gegn. Það vill svo til að þegar ég les, ólögfróður maðurinn, breytingartillögu þingflokksformannanna sé ég ákveðin líkindi á milli þeirra hugmynda sem eru í þessu samræmingarfrumvarpi til vatnalaga og þess náttúruauðlindaákvæðis í þjóðareign sem hér er lagt fram af þingflokksformönnum Vinstri grænna og Samfylkingarinnar. Það er öðruvísi en það ákvæði sem formaður Samfylkingarinnar lagði fram sem umræðugrundvöll deginum áður.

Það vakti mig til umhugsunar um hvort hér séu menn komnir á hálan ís á stuttum tíma án þess að hafa haft samráð við sérfræðinga, m.a. að taka hér inn tiltekna dýpt sem menn hafa gefist upp á, m.a. um þetta jafnræðissjónarmið sem ég heyri — á það að duga mér og þingmönnum öllum að hv. þm. Mörður Árnason segi að það sé í góðu lagi? Þurfum við ekki meiri yfirlegu áður en við setjum slíkt ákvæði (Forseti hringir.) inn í stjórnarskrá?