141. löggjafarþing — 109. fundur,  22. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[18:08]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo ég svari síðustu spurningunni fyrst þá lá það alveg ljóst fyrir, ég hafði gert mér grein fyrir því og var þeirrar skoðunar og búinn að vera það í töluvert langan tíma, að málið var gjörsamlega strand, að taka heildarendurskoðun á stjórnarskránni á þeim dögum sem eftir eru af þinginu. Það er mín persónulega skoðun. Mér fannst virðingarvert af hv. þingmönnum, forustumönnum stjórnarflokkanna, að stíga þá þetta skref.

Ég ítrekaði það hérna í ræðu minni að ég er ekki að leggja til að taka tillögurétt af þingmönnum, alls ekki. Það þarf hins vegar að skapa það traust sem þarf til að menn fari ekki að smygla heilu bálkunum inn í 3. umr. ef menn vilja klára málið á þeim grunni sem frumvarpið liggur á. Frumvarpið er tvær greinar. Í fyrsta lagi á að gera breytingu á 79. gr. Í öðru lagi segir í 2. gr.: „Lög þessi öðlast þegar gildi.“ Það kom mjög skýrt fram í ræðu hv. þm. Árna Páls Árnasonar og hæstv. menntamálaráðherra þegar mælt var fyrir málinu hver ásetningur og tilgangur þeirra var með því að flytja frumvarpið og þingsályktunartillöguna sem ég tel að sé órjúfanlegur hluti af því. Það var mjög skýrt hvert tilefnið var. Þess vegna segi ég að þegar komið er með svona breytingartillögur inn í málið sé það bara til þess að skapa tortryggni og skemma málið. Það er mín skoðun. Ef hv. þingmenn stjórnarliðsins sjá það ekki held ég að þeir þurfi aðeins að fara betur yfir málið, nema við séum bara ósammála.

Mig langar að velta þessu upp við hv. þingmann: Telur hv. þingmaður það eðlilegt að við tökum bara umræðu úr ræðustól um að setja inn auðlindaákvæði í stjórnarskrána? Við erum búin að kalla eftir því allt heila kjörtímabilið að setjast niður og skrifa auðlindaákvæði. (Forseti hringir.) Því hefur ekkert verið sinnt, akkúrat ekki neitt.