141. löggjafarþing — 111. fundur,  26. mars 2013.

opinberir háskólar.

319. mál
[19:36]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það er nokkuð um liðið frá því að við ræddum þetta mál í 2. umr. þar sem talsverðar umræður skópust um einstök atriði frumvarpsins. Í raun og veru er ýmislegt jákvætt í frumvarpinu og ég vil nefna samstarfsnetið í því sambandi. Ég held að í sjálfu sér sé nálgunin skynsamleg. Verið er að reyna að hagræða í fyrsta lagi og í öðru lagi styrkja ýmsar námsgreinar sem er verið að kenna á mörgum sviðum — ég ætla kannski að koma að því síðar, annaðhvort í þessari ræðu eða annarri ræðu — en ég tel það í sjálfu sér jákvæða nálgun.

Það sem mig langar að gera aðeins að umræðuefni í upphafi er 5. gr. frumvarpsins þar sem segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Við 24. gr. laganna bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Umsýslu- og afgreiðslugjöldum umsókna nemenda með ríkisfang utan Evrópska efnahagssvæðisins, að undanskildum Færeyjum og Grænlandi.“

Hvað er verið að leggja til? Verið er að leggja til, sem er út af fyrir sig sjálfsagt og eðlilegt mál, að opinberum háskólum verði veitt heimild til að taka sérstök umsýslu- og afgreiðslugjöld vegna umsókna um skólavist frá aðilum utan Evrópska efnahagssvæðisins. Það er mjög fróðlegt að skoða og það sem er upplýst í athugasemdum við 5. gr., að umsóknum við Háskóla Íslands frá einstaklingum frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins hafi fjölgað gríðarlega mikið, kom mér satt að segja mjög á óvart. Í því sambandi eru nefnd dæmi. Árið 2011 fékk Háskóli Íslands 800 umsóknir frá einstaklingum frá Nígeríu og 200 frá Kamerún. Síðan segir í athugasemdum, með leyfi virðulegs forseta: „og álíka margar frá Pakistan, Íran, Írak og fleiri löndum utan EES.“

Við erum að tala um að minnsta kosti á annað þúsund umsóknir sem hafa borist sem kostar auðvitað heilmikið að fara í gegnum. Öllum er auðvitað ljóst af því að ekki er full alvara að baki þeim umsóknum.

Það rifjast upp fyrir mér að fyrir ekki mjög löngu síðan var haldin mikil ráðstefna á Íslandi um ræktun barrtrjáa á norðurslóðum. Þá bárust einmitt umsóknir frá ýmsum löndum, sem meðal annars eru nefnd til sögunnar hér, þannig að það er ljóst mál að í því sambandi er margt sem bendir til þess að menn séu að reyna að komast inn fyrir múra Evrópu og búa sér til möguleika á einhvers konar dvalarleyfi, en ekki sé einlægur vilji að baki til að stunda nám við Háskóla Íslands.

Ég tel þetta líka mjög eðlilegt ákvæði. Það er auðvitað svo að af því hlýst margvíslegur kostnaður, það þarf að fara yfir umsóknirnar, staðreyna upplýsingar og þar fram eftir götunum og kostnaðurinn er heilmikill. Vitaskuld yrði það þannig að áður en farið væri að vinna í svona málum væri óskað eftir staðfestingargjaldi sem mundi væntanlega hafa þau áhrif í för með sér að þeim umsóknum fækkaði sem raunverulega þarf að láta vinna úr og láta eitthvað reyna á. Í sjálfu sér er það ósköp eðlilegt mál.

Það vekur hins vegar upp annað atriði sem er full ástæða fyrir okkur til að ræða í því samhengi. Við erum hér að taka upp ákveðið fyrirkomulag sem á væntanlega ekki bara við um þá sem sækja um frá þeim tilteknu löndum heldur alla sem sækja um utan hins Evrópska efnahagssvæðis. Við erum að láta þá greiða tiltekin gjöld, þjónustugjöld til að standa straum af því umstangi sem fylgir því að fara yfir umsóknir, hvort sem menn telja fulla alvöru á bak við þær eður ei.

Það sem mér finnst það meðal annars vekja okkur til umhugsunar um er að við vitum að það er mikið ójafnræði fyrir íslenska stúdenta sem sækja um skólavist í ýmsum löndum innan hins Evrópska efnhagssvæðis. Tökum dæmi. Breskir nemendur sem sækja um skólavist í Háskóla Íslands þurfa ekki að greiða önnur skólagjöld en sem eru við lýði þar, hvort sem um er að ræða innlenda eða erlenda stúdenta. Þar eru þeir út af fyrir sig algjörlega jafnsettir sem breskir nemendur og ef þeir væru íslenskir. Ef það snýst hins vegar við, ef íslenskur námsmaður hefur hugsað sér að fara í nám til Bretlands, er farið þannig með þann einstakling að honum er gert að greiða mjög há skólagjöld.

Nú hefur sú þróun orðið á síðustu árum, m.a. í ríkisstjórn Frjálslynda flokksins og Íhaldsflokksins, að skólagjöld í Bretlandi hafa almennt verið hækkuð og á það við um þá sem sækja um skólavist frá útlöndum sem og þá stúdenta í Bretlandi sem sækja um skólavist þar. Íslendingar eru settir í flokk með fólki utan Evrópu. Við erum auðvitað ekki aðilar að Evrópusambandinu, en það er hins vegar þannig að í ýmsum slíkum löndum gilda sambærilegar reglur um okkur Íslendinga og í Evrópu, það á hins vegar ekki við um Bretland. Það hefur orðið til þess að íslenskum nemendum í Bretlandi hefur fækkað snarlega og mjög mikið á undanförnum árum. Bretar hafa verið alveg ótrúlega þvergirðingslegir þegar hefur komið að því að reyna að fá þá til þess að líta svo á að við ættum í því sambandi að njóta sama réttar og lönd innan Evrópusambandsins. Það eru auðvitað full rök að mínu mati á grundvelli EES-samningsins að íslenskir námsmenn sem sækja um skólavist í Bretlandi fái sömu meðhöndlun og breskir nemendur.

Þess vegna tel ég að það væri ekkert óeðlilegt að íslenskir háskólar svöruðu nánast í sömu mynt og brygðust við gagnvart erlendum nemendum með einhverjum sambærilegum hætti þannig að t.d. breskum stjórnvöldum væri gert ljóst að ekki væri sjálfgefinn hlutur af hálfu okkar Íslendinga að taka á móti breskum nemendum, velkomnir sem þeir eru að öðru leyti, öðruvísi en þeir tækju meiri þátt í kostnaði við skólagöngu sína í íslenskum háskóla en þeir gera í dag á meðan sú regla gildir í Bretlandi að íslenskum nemendum er gert að greiða svona há skólagjöld þar.

Það er auðvitað svo að mjög gott er fyrir Íslendinga að eiga þess kost að stunda nám sitt utan heimalandsins. Það víkkar sjóndeildarhringinn, gerir íslenskum nemendum kleift að kynnast menningu, siðum og námi í öðrum löndum, auðgar auðvitað þekkinguna, m.a. með tungumálinu, en þeir soga ekki síður í sig það sem er að gerast í háskólum úti um allan heim. Það er enginn vafi á því að í gegnum tíðina hefur skipt miklu máli fyrir okkur Íslendinga að hafa á að skipa einstaklingum sem hafa átt þess kost að sækja nám sitt til útlanda.

Núna er að sjálfsögðu búið að setja mikinn þröskuld í veg þeirra íslensku námsmanna sem hafa verið að fara til náms í öðrum löndum og t.d. kjósa sér að fara til náms í Bretlandi, eins og menn hafa gert í miklum mæli í gegnum tíðina og sá sem hér stendur er einn þeirra. Það er búið að setja mikinn þröskuld í veg þeirra sem vilja fara til náms í Bretlandi.

Ég geri það að umræðuefni hérna vegna þess að við reynum í frumvarpinu að setja upp ákveðnar girðingar til að koma í veg fyrir að menn séu með einhverja sýndarumsóknir í Háskóla Íslands með tilheyrandi kostnaði. Ég geri mér ekki grein fyrir því hver kostnaðurinn er við að fara í gegnum eitthvað á annað þúsund umsóknir frá nemendum sem sækja greinilega ekki um af fullri alvöru. Ég styð þess vegna eindregið að setja upp þjónustugjald til að stemma stigu við svona hlutum sem eru ekkert nema kostnaður fyrir háskólann og verður síst af öllu til þess að efla menningarleg tengsl Íslands og þeirra stúdenta sem koma frá öðrum löndum. Við hljótum líka að þurfa að velta þeim hlutum fyrir okkur í dálítið breiðara samhengi, sérstaklega gagnvart þeim þjóðum sem eru í samstarfi við okkur t.d. innan hins Evrópska efnahagssvæðis og kjósa að heimta gjöld af íslenskum námsmönnum sem eru eins há og raun ber vitni. Þau eru miklu hærri fyrir okkur en þá nemendur sem (Forseti hringir.) eru frá löndum innan Evrópusambandsins.