141. löggjafarþing — 112. fundur,  27. mars 2013.

stjórnarskipunarlög.

641. mál
[21:21]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U):

Frú forseti. Það að samþykkja þessa tillögu er fullkomið lykilatriði í því að hægt sé að halda áfram heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar. Ég held að við höfum séð það á undanförnum vikum að stjórnmálamenningin, starfshættir og þingsköp Alþingis gera það að verkum að ekki er hægt að fara með nýja stjórnarskrá í gegnum þingið með þeim breytingarákvæðum sem þegar eru fyrir hendi, í gegnum tvö þing og alþingiskosningar á milli. Það er of mikil pressa, það er einfaldlega komið í ljós að það er ekki hægt.

Það þurfti því að opna nýja leið til að breyta stjórnarskránni til að halda þessu ferli áfram og hér erum við að greiða atkvæði um þá leið. Hún felur í sér að það er hægt að breyta stjórnarskránni hvenær sem er á næsta kjörtímabili með samþykki 2/3 þingmanna og samþykki 40% þjóðarinnar. Þetta heldur lífi í endurskoðunarferlinu, lífi í þeirri von að við fáum nýja stjórnarskrá. Ég fagna því mjög að það er útlit fyrir að þetta breytingarákvæði verði samþykkt. Það kemur þá til viðbótar því sem við höfum nú þegar.