141. löggjafarþing — 112. fundur,  27. mars 2013.

stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

618. mál
[22:24]
Horfa

Jón Bjarnason (U) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég vek athygli á því að hér er ekki verið að samþykkja fjárheimildir til byggingar Landspítalans séu einhverjir að láta sig dreyma um það. Það er tekið við afgreiðslu fjárlaga, þannig að það er blekking að halda því fram að þetta frumvarp feli það í sér. (Gripið fram í: Rétt.) Frumvarpið felur fyrst og fremst í sér heimild til að stofna til hlutafélags um byggingu Landspítala – háskólasjúkrahúss. (Gripið fram í: Einkavæðing.)

Ég vil minna á, frú forseti, að þótt nauðsynlegt sé að bæta byggingar og aðstöðu Landspítalans er það líka tengt því að hér verði flugvöllurinn varanlega í Vatnsmýrinni þannig að við séum ekki stöðugt að taka þá umræðu að flytja eigi flugvöllinn. Það er fasttengt saman, bygging háskólasjúkrahúss og flugvallarins. [Kliður í þingsal.]

Ég vil líka minna á að sjúkrahús úti um land, hvort sem er í Reykjanesbæ, Akranesi, Akureyri, Sauðárkróki, Ísafirði o.s.frv., (Forseti hringir.) eru með vannýtt húsnæði vegna niðurskurðar. Eigum við ekki að horfa til forgangsröðunar og nýta það húsnæði sem fyrir er? (Forseti hringir.)

Frú forseti. Ég er líka á móti því að það sé að verið að einkavæða þessa byggingu. Ríkið byggir hana og leggur til (Forseti hringir.) þess fjármagn á fjárlögum þegar það liggur fyrir þinginu.