142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

jöfnuður í ríkisfjármálum.

[13:37]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég virðist þurfa að byrja á því að útskýra fyrir hv. þingmanni merkingu hugtaksins „skynsemi“. Skynsemi felur í sér að ekki er endilega annaðhvort allt svart eða allt hvítt, það getur verið einhver millivegur. Þannig er það ekki svo að alltaf sé til hagsbóta fyrir ríkið að lækka skatta, það getur dregið úr tekjum þess. En það er ekki heldur alltaf til hagsbóta fyrir ríkið að hækka skatta. Það er það sem ég var að reyna að benda hv. þingmanni á hér áðan, að ef nálgun hans á skattamál ætti að standast hlyti samkvæmt því alltaf að vera æskilegt að hækka alla skatta, jafnvel þótt það væru skattar eins og eru hér til umræðu, skattar sem eru til þess fallnir að fæla ferðamenn frá landinu, einn helsta vaxtarbrodd íslensks efnahagslífs, ferðamenn sem hafa í rauninni haldið efnahagslífinu á floti undanfarin ár.

Eins og var bent á þegar ríkisstjórnin kynnti hugmyndir sínar um þessa nýju skatta eru þeir einmitt til þess fallnir að koma í veg fyrir að menn yfir höfuð komi til landsins og þar af leiðandi eitt besta dæmið um skatta sem eru ekki til þess fallnir að auka tekjur ríkisins til lengri tíma litið heldur eyðileggja skattstofna og draga úr tekjunum, eins og gert hefur verið á allt of, allt of mörgum sviðum á undanförnum árum. (Gripið fram í.)(Forseti hringir.)