142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[14:16]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að óska hæstv. fjármálaráðherra velfarnaðar í því mikla starfi sem hann hefur nú tekið að sér. Þetta hefur náttúrlega verið gífurlega erfitt starf, svo sem alltaf og ekki síst undanfarin fjögur ár þegar þurfti að skera allt niður og hækka skatta til að hreinsa upp eftir þau miklu áföll sem urðu hér haustið 2008.

Ég verð samt sem áður að segja að í þessu tilfelli er ég svolítið hugsi yfir því frumvarpi sem nú er lagt fram. Það var lagt til að leggja skatta á atvinnugrein sem í rauninni hefur fengið niðurgreiðslur vegna þess að innskattur á gistinætur hefur verið hærri en útskatturinn. Svo hefur hæstv. fjármálaráðherrann ranglega lýst því (Forseti hringir.) hvernig ástandið er miklu verra en látið hefur verið í ljós (Forseti hringir.) vegna þess að tölur um ríkisútgjöld — þau eru ekki heimatilbúin, þau eru opinber gögn. (Forseti hringir.)

Ég vil því spyrja ráðherrann hvernig hann gerir þetta, hvernig hann hugsar þetta mál, að ætla núna að byrja á því að lækka skatta á atvinnugrein (Forseti hringir.) sem er í örum vexti.