142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[14:17]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Skatturinn sem hér um ræðir er greiddur af þeim sem koma og gista á Íslandi. Þetta er virðisaukaskattur sem leggst ofan á reikninginn fyrir það að koma og gista á Íslandi. Menn verða að halda því til haga. Sá skattur var sem sagt hækkaður af fyrri ríkisstjórn. Það hefði tekið gildi í september. Við viljum að hann verði aftur lækkaður og þannig ýtt undir með ferðaþjónustunni í landinu við að halda áfram þeim mikilvæga vexti sem vísað er til í ræðu hv. þingmanns.

Við viljum að greinin haldi áfram að fjárfesta, að hvati sé til þess að fjárfesta í innviðum þessarar greinar. Við teljum að með því að halda þessu virðisaukaskattsþrepi lágu, að minnsta kosti næstu árin, séu meiri líkur til þess að það losni um fjárfestingartækifæri og fjármagn streymi inn í greinina frekar en ef virðisaukaskatturinn yrði hækkaður, það er svo einfalt.

Við teljum líka að þetta sé mikilvægt fyrir samkeppnisstöðu Íslands um ferðamenn gagnvart öðrum ríkjum, ekki verður horft fram hjá því að virðisaukaskatturinn hlýtur að vera eitt af því sem kemur þar til athugunar. En hvaða mótvægisaðgerðir er hægt að nota (Forseti hringir.) til þess að bregðast við mögulega lægri tekjum til skamms tíma? Þar er bara öll flóran (Forseti hringir.) undir.