142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[14:23]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég saknaði þess að hv. þingmaður kæmi hingað upp og fagnaði frumvarpinu sem hún sagðist vera svo mjög sammála í aðdraganda kosninga fyrir nokkrum vikum síðan, þegar hún fór um landið og lýsti því yfir að hún mundi beita sér fyrir því að þessi virðisaukaskattur yrði lækkaður, að ákvörðun um að hækka hann í 14% yrði dregin til baka. Ég sakna þess að hún komi inn á málið sem er hér efnislega til umræðu. En það er svo sem sjálfsagt að bregðast við andsvörum við ræðu mína frá því í gær.

Þá get ég upplýst hv. þingmann um að menn telja almennt að 13 milljarðarnir sem vissulega eru í fjárlögum og ætlaðir eru Íbúðalánasjóði — að í ljósi stöðu Íbúðalánasjóðs muni þurfa að verulegu leyti, ef ekki öllu, að gjaldfæra þá greiðslu. Það mun valda því að afkoma ríkissjóðs á þessu ári verður verri, þ.e. 13 milljarðarnir muni ekki mynda eign inni í Íbúðalánasjóði heldur brenna þar upp á bálinu. Það leiði til gjaldfærslu sem gerir stöðu ríkissjóðs verri. (Gripið fram í.)

Varðandi framúrkeyrsluna er eðlilegt (Forseti hringir.) að það sé dregið fram í hvað stefnir þegar við tökum við af fráfarandi (Forseti hringir.) ríkisstjórn.