142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[14:25]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta mál er hluti af þeirri áætlun okkar að senda út jákvæð skilaboð til atvinnulífsins, til þeirra greina sem draga hingað erlenda ferðamenn og skapa gjaldeyristekjur fyrir landið. Ég get ímyndað mér að þetta sé hluti af svipaðri áætlun og hv. þingmaður hafði sjálf í huga þegar hún mæltist til þess að þessi skattur yrði ekki hækkaður, (Gripið fram í.) þessi áform um hækkun mundu ekki ná fram að ganga. (KaJúl: Hvernig ætla menn að ná heildarjöfnuði?) Þetta er liður í þeirri áætlun.

Þegar spurt er hvert er heildarlangtímaplan ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum mun það að sjálfsögðu verða lagt fram eins og gert er ráð fyrir í þingskapalögum samhliða fjárlagafrumvarpinu í haust. Ríkisstjórnin er einfaldlega nýtekin við og alveg eins og fráfarandi ríkisstjórn munum við, samhliða fjárlagafrumvarpinu, leggja fram áætlun í ríkisfjármálum til nokkurra ára þegar að því kemur.

Það eru hins vegar ýmsir eldar sem brenna nær okkur. Þeir eru til komnir vegna þess að alls konar tekjuforsendur (Forseti hringir.) fráfarandi ríkisstjórnar hafa brostið, t.d. um sölu eigna og arðgreiðslur (Forseti hringir.) á yfirstandandi ári.