142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[14:54]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta og yfirgripsmikla ræðu, hún var flutt af mikilli þekkingu. Hins vegar er það frumvarp og sú lagasetning sem sett var á brot á ákveðnu prinsippi, þ.e. hér var bætt inn nýju virðisaukaskattsþrepi, 14%. Við erum með 0% skatt, við erum með 7% skatt, við erum með 25,5% skatt og við erum ekki með neinn skatt t.d. af fjármálaþjónustu, heilbrigðisþjónustu og menntakerfi. Þar er enginn virðisaukaskattur. Það sama á við um laxveiðileyfi og sitthvað fleira.

Það gefur mikil færi á undanskotum. Þeir sem vilja hafa rökfræðina í lagi eru á móti því að bæta við nýju skattkerfi. Þess vegna er ég á móti því. Ég var líka á móti því vegna þess að það var sett á með svo stuttum fyrirvara að menn voru búnir að selja ferðirnar sem átti að skattleggja, þeir gátu ekki varað sig.

Svo sagði hv. þingmaður að þetta væru 10% af útgjöldum ferðamanna. Einmitt. 90% annars staðar. Og hvernig skyldi það nú vera skattlagt? Flugferðirnar eru ekki skattlagðar með virðisaukaskatti og annar hluti er í 25,5% virðisaukaskatti að einhverju leyti þannig að það að ná inn ferðamönnum með því að lækka þennan skatt eykur tekjur ríkissjóðs annars staðar.

Síðan sagði hv. þingmaður að þetta hefði óveruleg áhrif á kjör launafólks. Ég er alls ekki sammála því. Ég geri ráð fyrir því að það þurfi heilmikið af fólki til að sinna þeim 100 þúsund ferðamönnum sem bætast við á ári. Ég hef reyndar ekki séð margar atvinnuauglýsingar frá ferðaþjónustunni en það þarf örugglega heilmargt fólk og það skiptir fólkið úti á landi verulegu máli hvort það koma örlítið fleiri eða færri ferðamenn.

.