142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[17:15]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í tengslum við það að draga til baka þá ákvörðun ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur að hækka virðisaukaskatt á gistinóttum þá eigum við að ræða í heildina skattstefnu ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, þá eigum við að bera saman gistinætur og kostnað í Danmörku og víða um heiminn, þá eigum við jafnvel að bera saman hagvöxt hér og hagvöxt annars staðar (Gripið fram í: Hálfur milljarður.) — þegar verið er að tala um að draga til baka skattahækkun sem gistiþjónustan, ferðaþjónustan öll eins og hún lagði sig, mótmælti.

Hv. þm. Guðbjartur Hannesson kallar eftir því að við ræðum hér og nú skattstefnu núverandi ríkisstjórnar þegar einn og hálfu mánuður eru frá kosningum. En við sem sátum hér á síðasta kjörtímabili höfðum aldrei hugmynd um skattstefnu ríkisstjórnarinnar í aðra veru en þá að hækka skatta í einu og öllu og á alla; rekandi samt öll árin fjárlögin og ríkissjóð með milljarða halla (Gripið fram í: Af hverju var það?)[Háreysti í þingsal.] Hér varð hrun, (Gripið fram í: Já, var það ekki?) — uppáhaldssetning, og það vita allir að hér varð hrun. En að þetta frumvarp kalli á að draga til baka skattbreytingar fyrri ríkisstjórnar, kalli á að í nefndinni þurfi að ræða skattbreytingar til hækkunar eða lækkunar næstu ára, gistinætur í Danmörku samanborið við gistinætur á Íslandi. — Virðulegur forseti. Fyrirgefið, það er gjörsamlega með ólíkindum að slíkur málflutningur skuli koma hér fram og það frá fyrrverandi velferðarráðherra.