142. löggjafarþing — 3. fundur,  11. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[17:51]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar að spyrja hv. þm. Össur Skarphéðinsson hvernig standi á því að þegar til stendur að lækka skatta sem á hafa verið lagðir þá kalli vinstri menn það tekjufall. Mig langar að biðja hann að útskýra í hverju það sé fólgið, hvort alltaf sé út frá því gengið að þegar skattar hækki komi sú upphæð sem út er reiknuð alltaf klár og kvitt inn í ríkissjóð og hvort það hafi verið svo síðustu fjögur ár meðan hv. þm. Össur Skarphéðinsson starfaði sem ráðherra. Það er eins og að skattahækkanir séu eignir ríkissjóðs og verði að tekjufalli þegar skattar eru lækkaðir. Mig langar að spyrja hann að því.

Í öðru lagi langar mig að spyrja hv. þingmann hvort ummæli fyrrverandi hæstv. fjármálaráðherra Katrínar Júlíusdóttur um að þessi skattur, 14% virðisaukaskattur af gistinóttum, hafi verið vondur hafi verið rædd í ríkisstjórn og hvort menn hafi innan ríkisstjórnarinnar einhvern tíma velt því fyrir sér að fara aðra leið en akkúrat þá sem hér var valin.