142. löggjafarþing — 4. fundur,  12. júní 2013.

störf þingsins.

[15:06]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Á undanförnum dögum og vikum síðan núverandi ríkisstjórn var mynduð hefur töluverð umræða orðið um stöðu umhverfismála í stjórnkerfinu og stjórnsýslunni hjá okkur vegna þess að ríkisstjórnin ákvað að setja ekki sérstakan umhverfisráðherra heldur gera umhverfisráðuneytið að skúffu í ráðuneyti hjá ráðherra sem fer með málefni tveggja atvinnuvega. Margir hafa orðið til þess að gagnrýna það fyrirkomulag og undir þá gagnrýni hef ég tekið því að ég tel mjög mikilvægt fyrir þjóð sem byggir afkomu sína á nýtingu náttúruauðlinda eins og við gerum — við byggjum afkomu okkar á nýtingu sjávarafurða, við byggjum afkomu okkar á ferðamönnum sem koma hingað til að leita í ósnortna og óspjallaða náttúru og við erum þekkt um allan heim fyrir skynsamlega nýtingu á orkuauðlindunum. Þess vegna tel ég að það skipti líka miklu máli fyrir okkur og fyrir vörumerkið Ísland og allan okkar útflutning að við séum trúverðug í umhverfismálum alla leið, þannig að þetta vörumerki sé óspjallað. Ég hef því haft áhyggjur af því að vera ekki með sérstakan ráðherra umhverfis- og auðlindamála eins og var í tíð fyrri ríkisstjórnar og reyndar í tíð ríkisstjórna meira og minna síðastliðin 20 ár.

Þess vegna langar mig að spyrja nýjan formann umhverfis- og samgöngunefndar, hv. þm. Höskuld Þórhallsson, hvort hann geti ekki tekið undir það með okkur í þingflokki Samfylkingarinnar og öðrum þeim sem hafa gagnrýnt þetta fyrirkomulag, þá hvatningu til nýrrar ríkisstjórnar að vinda sér í það að skipa sérstakan ráðherra fyrir umhverfis- og auðlindamál á Íslandi svo að þeirri óvissu sem þessum mikilvæga málaflokki hefur verið sköpuð verði eytt.