142. löggjafarþing — 4. fundur,  12. júní 2013.

Landsvirkjun og rammaáætlun.

[15:55]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Ísland er ríkt af auðlindum. Við nýtingu þeirra þarf að hafa sjálfbærni að leiðarljósi. Það á við um fiskinn í sjónum, ferðamannastaðina, fallvötnin, jarðhitann og andrúmsloftið. Rammaáætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða markaði tímamót því að með henni skapaðist sátt um aðferðafræðina við flokkun landsvæða og þá sátt má ekki slíta. Í rammaáætlun sem við samþykktum í vor voru kostir settir í nýtingarflokk sem ég hefði viljað vernda, en ég taldi mikilvægara að styðja aðferðafræðina í stað þess að leyfa mínum persónulegu skoðunum að ráða för. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur virðast ætla að hlaupa undan áætluninni í flæmingi og láta sína pólitísku duttlunga ráða.

Í lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun frá 2011 stóðu allir flokkar að því að samþykkja að ráðherra skyldi senda þingsályktunartillöguna um rammaáætlun út til umsagnar áður en hún yrði lögð fyrir Alþingi. Það var gert og á grundvelli málefnalegra umsagna var ákveðið að flytja nokkur landsvæði úr nýtingarflokki í biðflokk. Enginn kostur var fluttur úr vernd í nýtingu eða öfugt heldur voru nokkur landsvæði sett í biðflokk til frekari rannsóknar. Það var gert á grundvelli varúðarsjónarmiða til að náttúran fengi að njóta vafans.

Ráðherrar nýrrar ríkisstjórnar tala fjálglega um að meðhöndla rammaáætlun eins og pólitískt vopn og leyfa sér í ofanálag að lýsa því yfir opinberlega hverja Landsvirkjun eigi að gera samninga við.

Hæstv. fjármálaráðherra sem skipar stjórn Landsvirkjunar er að veikja samningsstöðu fyrirtækisins, sem á að tryggja góða arðsemi af orkuauðlindunum okkar. Þessar yfirlýsingar jafngilda stríðsyfirlýsingu. (Forseti hringir.)