142. löggjafarþing — 5. fundur,  13. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[11:55]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það undrar mig satt að segja að hæstv. menntamálaráðherra skuli ekki, úr því að hann treystir sjálfum sér og forvera sínum í embætti til að fara með þetta vald á réttan og eðlilegan hátt, að minnsta kosti vilja láta reyna á það fyrirkomulag sem samþykkt var hér í þinginu. Það fyrirkomulag studdi núverandi samstarfsflokkur hans í ríkisstjórn, Framsóknarflokkurinn, og Sjálfstæðisflokkurinn sat hjá að mestu leyti, þar með talinn hæstv. núverandi menntamálaráðherra. Það undrar mig að hann skuli þá ekki vilja láta reyna á þetta, nema hann óttist að hann sitji ekki mjög lengi sjálfur í þessu embætti sem kemur mér á óvart því að ég hélt að hann hefði allan metnað til að vera lengi í embætti mennta- og menningarmálaráðherra. En látum það liggja á milli hluta.

Það er annað sem ég vildi þá líka spyrja um af því að hann segir að það sé eðlilegt að í stofnun af þessu tagi — þetta er fyrirtæki í almannaþágu — sé stjórnin valin beint af Alþingi, pólitísk stjórn valin beint. Þá hlýt ég að spyrja hæstv. ráðherra hvort það hið sama ætti þá ekki að eiga við um ýmsar aðrar stofnanir ríkisins og fyrirtæki sem sinna almannaþjónustu eða starfa í þágu almennings í landinu. Er þá að vænta frumvarpa frá fleiri ráðherrum í þá veru? Ég nefni sem dæmi stjórn Landsvirkjunar. Er þá hæstv. ráðherra þeirrar skoðunar að það sama fyrirkomulag og hann leggur til hér eigi við í fleiri tilvikum og hefur það verið rætt sérstaklega í ríkisstjórninni að fara aftur í þann farveg? Sú stefna var mótuð fyrir allmörgum árum, og ég hygg undir forustu núverandi stjórnarflokka á fyrri árum, að taka einmitt kjör í stjórnir og ráð í stofnanir og fyrirtæki ríkisins frá Alþingi yfir í annan farveg. Þetta hlýtur að vekja upp spurningar um hvort við eigum von á fleiri frumvörpum í þessa veru frá hæstv. ríkisstjórn.