142. löggjafarþing — 7. fundur,  18. júní 2013.

breyting á lögum um veiðigjöld.

[13:55]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni þessa fyrirspurn. Hún kom reyndar upp hér í þinginu fyrir helgi þegar ég mælti fyrir frumvarpinu, ekki síst hvað varðaði samráð við veiðigjaldsnefndina. Ég upplýsti þá og get gert það aftur í dag að það var gert með þeim hætti að þegar ég kom í ráðuneytið var ljóst að bregðast þyrfti við því að þau lög sem ella áttu að taka gildi 1. september, eins og þingmaðurinn veit, voru óframkvæmanleg. Það var ekki hægt að leggja gjaldið á samkvæmt þeim frá og með næsta fiskveiðiári þannig að það þurfti að bregðast við. Ég sagði hér fyrir helgina að það hefði ekki skipt nokkru máli hvaða ríkisstjórn hefði komið að málum, í þessum sal hefði akkúrat verið fjallað um veiðigjöld á þessum tíma. Þess vegna kallaði ég veiðigjaldsnefndina fyrir strax og hún var með í ráðum frá fyrstu mínútu, vil ég segja, og til þeirrar útfærslu sem síðan lá fyrir í frumvarpinu, þannig að samráð samkvæmt lögunum og samkvæmt því sem skynsamlegt er, að hafa samráð við þá sem hafa verið á kafi í málinu frá því fyrir einu ári, var fullkomið.

Varðandi það sem hv. þingmaður kom hér inn á og samanburð við tölur yfirstandandi árs og þess sem þær hefðu hugsanlega getað orðið ef lögin hefðu tekið gildi, og að um 50% skattur hefði verið tekinn af útgerðinni áður en kom til fjármagnsliða, eins og til stóð, þá hefðu þær tölur orðið umtalsvert hærri. Þær hefðu m.a. í uppsjávarhlutanum orðið um 71 kr. alls. Því er það mikið undrunarefni og við höfum skoðað það í ráðuneytinu og ég spurði hér fyrrverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra, hv. þm. Steingrím J. Sigfússon, hvernig á því stæði að þessi tala vegna yfirstandandi árs væri 27,50 en ekki umtalsvert hærri miðað við að þá átti hún að vera um 45% (Forseti hringir.) af svokölluðum umframhagnaði.