142. löggjafarþing — 7. fundur,  18. júní 2013.

áherslur nýrrar ríkisstjórnar í ríkisfjármálum.

[14:35]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. málshefjendum umræðuna. Rétt er að geta þess að beiðni hafði komið til fjárlaganefndar um að fulltrúar fjármálaráðuneytisins og hæstv. fjármálaráðherra mundu koma fyrir fjárlaganefnd nú fyrir síðustu helgi. Það er reglulegur fundur í nefndinni á morgun þannig að þeir þingmenn sem sitja í fjárlaganefnd geta því undirbúið sig í þessari umræðu og lagt fram ítarlegri spurningar sem vakna hér. Því ber að fagna. Fulltrúar fjármálaráðuneytisins og hæstv. fjármálaráðherra koma fyrir nefndina kl. 10. Ég hvet því þingmenn til þess að taka niður punkta nú í umræðunni, því að fundaróskin var á þessum grunni, þ.e. hvernig staða ríkissjóðs væri.

Hér hafa fallið einkennilegar setningar, við öðru er kannski ekki að búast, eins og þessi nýi frasi Samfylkingarinnar að hún hefði ekki getað lofað neinu í kosningabaráttunni. Því vísa ég á bug því að ég er með gögn undir höndum sem ég fer kannski yfir á eftir. Það var raunverulega skjalfest fyrir kosningarnar, allur loforðalistinn og þau mál sem átti að koma hér í gegn fyrir kosningar sem var raunverulega búið að lofa. Fara átti fram með stóra hluti, hefðu þeir flokkar haldið völdum áfram, á gagnslausri fjárfestingaráætlun. Við skulum muna hvað lá til grundvallar, virðulegi forseti. Það var fjárfestingaráætlun sem byggð var á lofti.

Hér er spurt: Hversu stórt er gatið? Ég minni á að ríkisstjórnarskipti urðu fyrir tæpum mánuði. Hér hrópa núverandi stjórnarandstæðingar og spyrja: Hversu stórt er gatið?

Skemmst er frá því að segja að það liggur fyrir mikið til í þingskjölum hvað til dæmis skuldir ríkissjóðs eru miklar. Ég vísa í svar við fyrirspurn, sem ég lagði fyrir þáverandi hæstv. fjármálaráðherra, á þskj. 924, 483. mál, þar sem ég spyr um hversu þung greiðslubyrðin verði fyrir ríkissjóð á árabilinu 2012–2018. Það svar var ekki birt með þungum vaxtagreiðslum ríkissjóðs. Það lítur betur út að sýna bara hvað afborganirnar eru án vaxta. En fram hefur komið að ríkissjóður greiðir milli 85 og 90 milljarða í vexti á ári í erlendum gjaldeyri, sem er um 15% af landsframleiðslunni. En samkvæmt svarinu sem barst þinginu 1. mars 2011 er greiðslubyrði ríkissjóðs af erlendum lánum með vöxtum um 700 milljarðar árabilið 2014–2021.

Við horfum líka fram á að nú er Landsbankinn nánast að fullu orðinn ríkisbanki. Við vitum öll hvernig skuldabréfið varð til þegar Bretar og Hollendingar rukkuðu okkur um ólögvarðar kröfur, kröfur sem okkur bar ekki lagaleg skylda til að bera, en þá skrifaði þáverandi hæstv. fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, undir 300 milljarða bréf og lagði inn í nýja Landsbankann. Landsbankinn er í algjörum vandræðum með þetta skuldabréf vegna þess að ekki er til gjaldeyrir til að greiða það skuldabréf. Það er ríkisábyrgð á skuldabréfinu vegna þess að Landsbankinn er að mestu kominn í ríkiseigu. Hvað ber að gera? Jú, nú þarf sú ríkisstjórn sem er nýtekin við að endursemja líklega um þetta lán ásamt stjórnendum Landsbankans. Vandinn er því risastór, virðulegi forseti.

Svo hrópar stjórnarandstaðan hér sem er nýfarin frá völdum, Samfylkingin búin að sitja sex ár í ríkisstjórn, Vinstri grænir fjögur ár í ríkisstjórn, og er alveg hissa á því að ríkisstjórnin hafi áhyggjur af stöðu ríkisfjármála.

Fram kemur í Hagsjá, ritinu sem gefið var út af hagfræðideild Landsbankans 12. júní 2013, hvað skuldir ríkisins eru áætlaðar háar. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Í upphafi þessa árs áætlaði fjármálaráðuneytið að heildarskuldir ríkissjóðs myndu verða um 1.500 milljarðar kr. í lok 2013. Nýjustu tölur sýna skuldir í árslok 2012 upp á um 1.560 milljarða kr., og um 1.930 milljarða kr. að viðbættum lífeyrisskuldbindingum. Sé vanda Íbúðalánasjóðs bætt við má ætla að skuldir ríkissjóðs losi nú 2.000 milljarða kr., sem er u.þ.b. 117% af landsframleiðslu.“

Við stöndum frammi fyrir miklum vanda. Við skulum bera virðingu fyrir þeim vanda og reyna að leysa þetta í sameiningu án upphrópana. Þessi staða er mjög erfið því að við þetta allt bætast skuldir sveitarfélaganna sem eru að auki 13–15% af landsframleiðslu.

Einnig kemur fram í þessu riti frá Landsbankanum sú skoðun að það sé viðtekin venja hér á landi að fjárlög haldi ekki. Útgjaldaaukningin frá fjárlagafrumvarpi, þ.e. frá því það er lagt fram til þess að það verði að lögum og svo til fjáraukalaga og endanlegs ríkisreiknings, er oft mjög mikil og niðurstaðan versnar oftar en ekki. Bilið frá fjáraukalögum til ríkisreiknings er oft skýrt með óreglulegum liðum og einskiptisaðgerðum. Við sáum það svo glöggt á síðasta kjörtímabili. Þá voru lögð fram fjárlagafrumvörp sem litu þokkalega vel út, með svona þolanlegum halla á ríkissjóði, en raunverulega var þar verið að leggja fram fyrstu drög því að svo komu alltaf síðar fjáraukalög sem juku halla ríkissjóðs verulega.

Við þurfum að breyta þessu. Ég skora á ríkisstjórn að breyta því verklagi því að þetta er óásættanlegt. Þegar mjög breytt fjáraukalagafrumvarp kemur fram í þinginu er staða ríkissjóðs allt önnur en þegar þingmenn samþykkja fjárlög, því að þá eru settar inn í fjáraukalögin nýjar forsendur.

Ég er ekki að segja, virðulegi forseti, að verið sé að beita blekkingum en það er í það minnsta verið að segja hálfsannleik.

Mig langar því til að grípa niður í fjárlagafrumvarpið 2013, lið 989 sem heitir Óviss útgjöld. Bætt var mjög við þann lið í fjárlögunum á síðasta ári en þar er að finna 5 milljarða fjárheimild til að bregðast við óvæntum og ófyrirséðum útgjöldum. Þessi liður var hækkaður um 2.200 milljónir á milli ára. Þarna er verið að setja inn 5.000 milljónir undir óvænt útgjöld í fjárlagafrumvarpinu. Þá hlýt ég að spyrja: Er búið að taka tillit til þessara 5 milljarða nú, þegar verið er að skoða ríkisreikninginn? Því að þarna er raunverulega verið að búa til svigrúm fyrir ráðherra ríkisstjórnarinnar að koma inn með útgjaldaaukningu til að setja undir þennan blinda lið án þess að það komi nokkurs staðar fram í ríkisbókhaldinu og hvað það er sem fellur þarna undir.

Þetta samræmist mjög því sem verið er að breyta í lögunum um fjárreiður ríkisins sem var minnst á í ræðu áðan. Fjárlaganefnd kemur til með að fá kynningu á því frumvarpi en sú litla kynning sem hefur farið fram á því frumvarpi lýtur að því að gera fjárlögin ógegnsærri. Eftir því sem mér skilst af þeirri kynningu sem ég hef fengið er verið að gera liðina stærri, ógegnsærri og eru það aðeins þingmenn fjárlaganefndar sem vita hvað er undirliggjandi hverri tölu. Ég veit því ekki, virðulegi forseti, hvort það sé til bóta talandi um það að allt eigi að vera gegnsætt og allt uppi á borðinu.

Að lokum langar mig til að koma með áskorun á nýja ríkisstjórn. Ég tel að mikil sóun eigi sér stað í ríkisfjármálum þegar kemur að leiguhúsnæði ríkisins. Við höfum farið í gegnum mikla endurskipulagningu til dæmis á Stjórnarráðinu á undanförnu kjörtímabili. Hvergi hefur verið hægt að festa fingur á því hvort um einhvern sparnað sé að ræða. Hér er alltaf verið að tala um langtímasparnað fyrir ríkissjóð. Ég efast stórlega um að svo sé, eins og til dæmis það dæmi sem minnst var á varðandi Perluna þegar ríkið gerði samning við Reykjavíkurborg að leigja Perluna til 15–20 ára. Gríðarlega miklir peningar liggja í þeim húsaleigusamningi. Ekki er búið að samþykkja í (Forseti hringir.) fjárlagafrumvarpi að svo mikil útgjöld nái fram að ganga.

Virðulegi forseti. Ég ætlaði að fara ofan í sérstaka liði sem (Forseti hringir.) bent var á sem ekki er lagabókstafur fyrir en var samt komið inn á áætlun hjá ríkisstjórninni að eyða. Ég verð að koma að því síðar þegar fjárlögin komast til umræðu.