142. löggjafarþing — 7. fundur,  18. júní 2013.

áherslur nýrrar ríkisstjórnar í ríkisfjármálum.

[15:16]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt núna í upphafi kjörtímabilsins að við tökum umræðu um stöðu ríkisfjármála og hvert stefnir.

Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með umræðunni í dag og síðustu daga þar sem menn hafa einkum verið að takast á um hvort verið sé að dekkja stöðuna eða hvort verið sé að segja sannleikann, hvort fráfarandi ríkisstjórn hafi verið að fegra stöðuna vísvitandi eða hvernig málum sé háttað. Ég held að það liggi alveg ljóst fyrir í það minnsta að staðan er ekki jafn góð og talað var um fyrir kosningar.

Stjórnarandstæðingar hafa komið hér ítrekað upp og talað um að núverandi ríkisstjórn hafi lofað öllu fögru. Mér er það minnisstætt fyrir kosningarnar þegar fráfarandi ríkisstjórn talaði mjög um þann gríðarlega góða árangur sem hefði náðst í ríkisfjármálum og að halli ríkissjóðs væri orðinn 4 milljarðar kr. Meðal annars ritaði efnahagsráðgjafi hæstv. forsætisráðherra, Ágúst Ólafur Ágústsson, grein nokkrum dögum fyrir kosningar þar sem þetta kom fram og sagði að þetta ætti m.a. að vera ástæða þess að veita ætti sitjandi ríkisstjórn áframhaldandi umboð. (Gripið fram í.)

Það er í rauninni sú staðreynd sem fráfarandi ríkisstjórn gaf upp boltann með og þetta urðum við vör við í kosningabaráttunni. 4 milljarðar. Það er ekki óeðlilegt að þegar nýir aðilar taka við búinu fari þeir að skoða allar áætlanir, fjárlög þessa árs og annað, fyrirliggjandi loforð, frumvörp sem voru samþykkt á síðustu dögum þingsins, og velti fyrir sér hver raunveruleg staða sé. Standast þessir 4 milljarðar eða ekki?

Þegar þessi skoðun hefur farið fram, gróflega, af hálfu hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra og ríkisstjórnarinnar, kemur auðvitað fram að þetta stenst ekki. Þá kemur fram, og m.a. hefur verið vitnað til blaðamannafundar sem var haldinn hér, að staðan er mun verri en þetta, talan getur hlaupið á allt að 14 milljörðum kr. og menn tala um að á næsta ári geti afkoma ríkissjóðs verið 27 milljörðum lakari en gert var ráð fyrir.

Þetta er staðreynd, þetta er verri staða en menn töluðu um í lok síðasta árs. Þetta er bara staðreynd, það er ekkert hægt að rengja þetta. Þá hljótum við að spyrja: Hvernig ætlum við að taka á málunum út frá þessari stöðu? Við getum leikið okkur með tölurnar og menn geta sagt: Ja, þetta er ekki alveg svona slæmt eða þetta er aðeins betra, en staðan er miklu verri en menn gerðu ráð fyrir og töluðu um í aðdraganda kosninga.

Við þessari stöðu þarf að bregðast og það er það sem hæstv. ráðherrar í ríkisstjórninni hafa boðað. Við þessu verður brugðist því að rétt eins og m.a. formaður Samfylkingarinnar hefur kallað eftir er grundvallaratriði að ná ríkissjóði hallalausum. Og það er rétt að fagna því að stjórnarandstaðan ætlar að vera samstarfsfús þegar kemur að því verkefni og koma að því verkefni með okkur, að ná ríkissjóði hallalausum því að það er grunnur þess að við getum byggt upp velferðarsamfélag.

Það liggur ljóst fyrir og kom m.a. fram í ræðu hæstv. fjármálaráðherra, kom fram á blaðamannafundi sem hann og hæstv. forsætisráðherra héldu, og hefur komið fram síðustu daga, að ýmsir liðir eru mun hærri en gert var ráð fyrir.

Það liggur líka ljóst fyrir að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er skýrt kveðið á um, og ég held að það sé gríðarlega mikilvægt, að grípa þurfi til hagræðingar í ríkisrekstrinum og það þurfi að ráðast í hana. Mig langar að lesa upp úr yfirlýsingunni, með leyfi virðulegs forseta, en þar segir að það eigi að taka til skoðunar „ríkisútgjöld með það að markmiði að hagræða og forgangsraða og auka skilvirkni stofnana ríkisins“.

Einnig er tekið fram í yfirlýsingunni að stefnt skuli að aukinni skilvirkni stjórnsýslunnar, m.a. með breytingum á skipulagi, samræmingu á stoðþjónustu, sameiningu stofnana og tilflutningi milli sviða í samræmi við áherslur og forgangsmál.

Það er nefnilega staðreynd að þessi halli ríkissjóðs er til staðar og ef við ætlum að mynda svigrúm til að byrja að greiða niður skuldir ríkissjóðs verður það ekki gert með almennum hagræðingaraðgerðum. Það þarf að fara ofan í allan ríkisreksturinn, fara ofan í einstakar stofnanir, við þurfum að horfa á þetta eins og fyrirtækjarekstur. Íslenska ríkið er ekkert stærra en mörg fyrirtæki á alþjóðamarkaði. Við þurfum að horfa á þetta eins og fyrirtækjarekstur og spyrja okkur: Getum við gert hlutina hagkvæmar en við höfum verið að gera? Getum við ráðist í sameiningu á einstökum ríkisstofnunum?

Það er fagnaðarefni hvernig stjórnarandstaðan kemur inn í umræðuna í dag og ætlar að leggja hönd á plóg við þetta verkefni í ljósi þess hversu mikið hún hefur talað um mikilvægi þess að ná jöfnuði í ríkisfjármálum til að geta farið að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Ég hlakka til samstarfs við stjórnarandstöðuna, m.a. í fjárlaganefnd, að þeim verkefnum.

Þegar menn tala um að ná jöfnuði í ríkisfjármálum þá þarf það nefnilega ekki endilega að þýða að það sé bara gert með því að hækka skatta á almenning og fyrirtæki í landinu. Það þarf ekki endilega að þýða að það þurfi alltaf að valda því að það dragi úr hagvexti í landinu. Það þarf ekki heldur að valda því að við drögum úr velferðarþjónustu eða gæðum menntunar. Það er hægt að hagræða í stjórnsýslunni og það er einmitt þar sem m.a. hefur ekki verið unnið nægilega vel á undanförnum árum. Ég hef miklar áhyggjur af því að margar stofnanir hafi verið að ganga á vannýtt fjárframlög og hafi ekki ráðist í raunverulegar (Forseti hringir.) hagræðingaraðgerðir til frambúðar. Þetta verður verkefni nýrrar ríkisstjórnar og ég hlakka til að starfa með stjórnarandstöðunni að því verkefni.