142. löggjafarþing — 7. fundur,  18. júní 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[17:22]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Starfandi forsætisráðherra hefur flutt frumvarp til laga um breytingu á lögum um Hagstofu Íslands og opinbera hagsýslugerð, með síðari breytingum, þ.e. tölfræðilegar upplýsingar um skuldir heimila og fyrirtækja.

Fyrir það fyrsta lætur þetta í eyrum sem mjög skynsamleg aðgerð og nauðsynleg. Maður spyr sig auðvitað af hverju verið sé að flytja þetta frumvarp 18. júní 2013. Af hverju hefur þetta ekki alltaf verið til?

Ég ætla í upphafi máls míns að hafa fyrirvara vegna persónuupplýsinga, persónurekjanlegra gagna, og vegna umsagnar í nefnd og umsagnar frá Persónuvernd. Þær mikilvægu upplýsingar sem þarf að gefa í þennan gagnagrunn mega ekki undir neinum kringumstæðum fara út fyrir þá stofnun sem heldur utan um þetta, t.d. til fjármálafyrirtækja eða annarra sem gætu þá nýtt sér þau gögn í ýmsum tilgangi. Það er fyrirvari minn. En fyrstu viðbrögð mín eru þau að þetta hljómi skynsamlega. Eins og ég segi þá undrast ég það í raun að þetta skuli vera gert núna fyrst árið 2013.

Virðulegi forseti. Mig langar að segja frá reynslu minni úr sitjandi ríkisstjórn 2008, við hrunið, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Þar var rætt um skuldavanda heimilanna og skuldastöðu fyrirtækja í landinu. Þá kom á daginn, sem er auðvitað hálfgeggjað, að hvergi var hægt að fá upplýsingar um skuldastöðu heimilanna, skuldastöðu einstaklinga. Þá höfðu menn áhuga á að taka strax á vandanum og kynna sér málin til að meta hvað hægt væri að gera í stöðunni. Fengið var leyfi frá Persónuvernd til að taka þessar upplýsingar saman. Fulltrúa í Seðlabankanum, ágætum ungum hagfræðingi, var falið að vinna þessi gögn og á nokkrum óformlegum ríkisstjórnarfundum var þessi vinna kynnt. Við sem sátum í þáverandi ríkisstjórn fengum sýningu uppi á tjaldi, en það var svolítið áfangaskipt.

Ég man til dæmis eftir einum fundi. Þá töldu menn sig vera komna með heildarskuldastöðu heimilanna vegna húsnæðislána, en þá átti eftir að greina skuldir einstaklinga vegna bílakaupa og skipta því eftir því hvað var í erlendum lánum og hvað í innlendum lánum. Þannig mjakaðist þetta smátt og smátt upp. Rúsínan í pylsuendanum, og það sem mér fannst töluvert geggjað, er að innan ákveðins tíma þurfti að eyða öllum þeim gögnum sem aflað hafði verið með miklum tilkostnaði og mikilli vinnu.

Nú ítreka ég það enn einu sinni, virðulegi forseti, að ég er ekki hlynntur því að eitthvað af þessu tagi sé gert og svo gætu, eins og segir í frumvarpinu: „… óráðvandir aðilar komist í gögnin“. Það má aldrei verða. Það má aldrei vera hægt að rekja slíkar upplýsingar eftir kennitölu. Þetta þarf að dulkóða þannig að það sé órekjanlegt.

Ég vona að starfandi forsætisráðherra, sem flutti þetta frumvarp, heyri til mín — því miður er hann farinn. Spurning mín er þessi: Af hverju eigum við að láta Hagstofuna gera þetta? Af hverju verður það ekki bara verkefni ríkisskattstjóra að eiga samtölur úr nokkrum dálkum í skattframtali? Nú kann ég ekki að segja hvar skuldir heimilanna eru settar inn á skattskýrsluna, en ef það væri reitur 174, innlend verðtryggð húsnæðislán, hver er þá samtalan út úr reit 174? Hvernig breytist sú samtala við næsta skattframtal og hvað hefur gerst? Spurning mín til hæstv. starfandi forsætisráðherra, Bjarna Benediktssonar, er þessi: Af hverju á Hagstofan að gera þetta en ekki ríkisskattstjóri?

Það er engu að síður nauðsynlegt fyrir okkur að eiga þessar upplýsingar. Þegar hið mikla efnahagshrun varð á haustdögum 2008 hefði þurft að vera hægt að keyra þessar upplýsingar allar út og fá skuldastöðu heimilanna, skipt eftir innlendum verðtryggðum lánum og svo aftur erlendum lánum o.s.frv., til þess að bregðast við. Allra best hefði verið að þetta hefði legið fyrir. Þá hefði Alþingi getað tekið þá ákvörðun með neyðarlögunum, sem kannski hefði verið skynsamlegast að gera, að taka vísitöluna úr sambandi í nokkra mánuði þar á eftir, vegna þess að við fall krónunnar var fyrirsjáanlegt hvað mundi gerast. Það hefði þurft að skoða hvort það hefði verið möguleiki.

Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson nefndi veiðigjöld og heimildir Hagstofu og ríkisskattstjóra til að afla gagna vegna álagningar veiðigjalda. Ég gerði það að umtalsefni hér áðan. Mér kemur það mjög á óvart sem starfandi formanni atvinnuveganefndar, sem hafði með veiðigjaldafrumvarpið að gera, að við vorum aldrei vöruð við því að auka þyrfti heimildir Hagstofu eða ríkisskattstjóra til að afla þeirra gagna sem nauðsynleg eru til að leggja á veiðigjöld miðað við nýjustu upplýsingar, miðað við upplýsingar dagsins skulum við segja. Hins vegar er talað um það núna að þess þurfi.

Ég ætla ekki að segja að það sé jafn klikkað, en það er jafn óþægilegt eða óheppilegt að það skuli ekki vera til í gagnabanka hjá hinu opinbera, órekjanlegt að sjálfsögðu milli fyrirtækja, hver heildarrekstrar- og skuldastaða sjávarútvegsfyrirtækja í landinu er. Í veiðigjaldafrumvarpinu er það sett fram hvernig skuldirnar hafa lækkað á undanförnum mánuðum, og það er gott. Það er væntanlega tekið upp úr skattframtölum til Hagstofu, en Hagstofan er með þessi gögn. Mig minnir að það taki hana að minnsta kosti ár — eftir því sem fram kom hjá fulltrúum hennar þegar verið var að finna að frumvarpi um veiðigjöld í atvinnuveganefnd — að vinna úr þeim gögnum sem talin eru fram til skatts og skattstofan sendir svo til Hagstofunnar.

Grundvallaratriðið er það, hvort sem um er að ræða Hagstofuna eða ríkisskattstjóra, að við verðum að treysta þeim 100% fyrir þessari gagnaöflun, að gögnin séu órekjanleg nema innan húss hjá þeim sem vinna þessa vinnu. Nokkrir aðilar þyrftu að geta komið að því til að geta tengt sig inn í kerfið og það þarf að vera rekjanlegt. Og ef eitthvað gerðist, annaðhvort óvart eða viljandi, þyrftu auðvitað miklar refsingar að liggja við. Það væri í lögum, það væri vitað mál ef það mundi upplýsast hver hefði gert það að þá væru mikil viðurlög við því sem forvarnaratriði.

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem hæstv. ráðherra hefur flutt hér sem staðgengill forsætisráðherra — hann er farinn að hitta forsætisráðherra Svíþjóðar — hljómar skynsamlega svona í byrjun. Ég ítreka þann fyrirvara sem kann að koma fram í vinnslu nefndarinnar; fyrirvara sem Persónuvernd kann að setja fram en við treystum þeirri stofnun 100% til að gæta að persónuvernd í landinu. En ég trúi ekki öðru, miðað við núverandi tækni, en hægt sé að setja þessar upplýsingar saman og keyra þær saman þannig að við höfum heildartölurnar, ekki endilega hvað íbúar í Garðabæ skulda eða íbúar á Siglufirði eða í Grindavík, ekki rekjanlegt á þann veg heldur heildina og hver hreyfingin er. Ég held að það sé mikilvægt til að koma betri efnahagsstjórn á í þessu landi.

Ef til vill er það táknrænt fyrir það hvernig við umgöngumst þessa hluti. Verðbólgan og verðtrygging og annað gerir það að verkum að menn hugsa ekki nógu mikið um það hver skuldastaðan er, hvort hún er að aukast eða minnka. Það er auðvitað mikilvægt að fylgjast með því.

Þó að ég eigi ekki sæti í efnahags- og viðskiptanefnd sá ég fljótlega að þetta var hérna og þetta var dálítið í takt við það sem gerðist 2008 þegar þáverandi ríkisstjórn fékk leyfi til að láta afla þessara gagna sem voru skoðuð lítils háttar. Eitthvað var reynt að vinna með þau, en í lokin var það skilyrði sett að Seðlabankinn tæki þetta saman og eyddi öllum þeim gögnum þar á eftir. Ég tók eftir því að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sagði í framsöguræðu sinni að ekki væri meiningin að gera þetta til skamms tíma og eyða svo gögnunum. Ég held að það sé líka alveg hárrétt.

En enn einu sinni set ég fram fyrirvara um það og tek undir það sem stendur í frumvarpinu, að söfnun persónuupplýsinga í miklum mæli felur alltaf í sér hættu á misnotkun og hættu á að óráðvandir aðilar komist í gögnin. Það má aldrei gerast. Þess vegna verður nefndin að fara verulega vel yfir þetta.

Auðvitað er líka rétt að minna á sjónarmiðin sem komu fram í umræðum fulltrúa forsætisráðuneytisins, væntanlega, við stærstu fjármálastofnun landsins um þetta. Þar kom fram að margir teldu gagnlegt að fá gagnagrunn af því tagi sem hér er rætt um og tölfræðiupplýsingar byggðar á honum, á meðan aðrir lýstu áhyggjum af því mikla gagnasafni sem þarna yrði til og hvort það gæti haft áhrif á traust almennings og fyrirtækja hvað það varðar að bankaleynd væri í heiðri höfð, en við verðum alltaf að geta treyst því að hún eigi við. Sú bankaleynd á að sjálfsögðu að eiga við um viðskipti hvers og eins. En það brýtur ekki endilega bankaleynd að taka saman hvað Íslendingar sem þjóð skulda í heild sinni, skipt eftir lánaflokkum eða til hvers menn nota lánin.