142. löggjafarþing — 7. fundur,  18. júní 2013.

Hagstofa Íslands.

14. mál
[17:34]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það er margt skemmtilegt við þetta frumvarp. Þegar ég las það fyrst sá ég fyrir mér alls konar kökurit í margvíslegum skemmtilegum litum og línurit og ýmsar tölfræðiupplýsingar sem væri afskaplega gaman og vissulega gagnlegt að vinna úr. Á sama tíma hræðir það mig pínulítið vegna þess að mér sýnist, og leiðrétti mig hver sem betur getur, að hér sé safnað saman hvorki meira né minna en öllum fjárhagslegum upplýsingum um alla frá öllum fyrirtækjum og lánastofnunum sem til eru á landinu. Ef sá skilningur er réttur þurfum við að gera okkur grein fyrir því að við erum í reynd að færa Hagstofunni gríðarlega mikið vald, næstum því alvald, yfir upplýsingasöfnun af fjárhagslegum toga frá þjóðinni allri. Þá er að mínu mati ekki nóg að treysta á þagnarskyldu starfsmanna Hagstofu.

Ég heyrði að hæstv. fjármálaráðherra vék að því að það þyrfti að huga að persónuvernd, að sjálfsögðu, og skoða hvaða aðrar leiðir væru færar sem eru ekki jafn róttækar. Þessar aðferðir eru verulega róttækar að mínu mati og kalla á mjög ítarlegar réttlætingar. Það má ekki safna slíkum upplýsingum með þessum hætti til þæginda. Það má ekki gerast. Þetta er ekki góð leið til þæginda. Ef það er nauðsynlegt, þá kannski að því gefnu að tekið sé tillit til allra þátta sem varða friðhelgi einkalífsins og persónuvernd.

Mig langar að stinga sérstaklega upp á því að frumvarpið verði líka sent til allsherjar- og menntamálanefndar vegna þess að friðhelgi einkalífsins sýnist mér tvímælalaust eiga heima þar og það held ég að sé veigamesti þátturinn þegar kemur að afgreiðslu þessa frumvarps. Kostirnir eru ótvíræðir, en gallinn er tvímælalaust þessi um friðhelgi einkalífsins. Við megum ekki leyfa okkur að vanmeta hann vegna þess að ef við stígum þetta skref, göngum svona langt í nýtingu upplýsingatækninnar, þurfum við meðfram því að íhuga borgararéttindin.

Það eru akkúrat svona mál sem gerðu það að verkum að píratar sáu nauðsyn á að bjóða sig fram. Meðfram tækniframförum koma líka tækifæri, ekki bara til þess að auka hagvöxt og safna upplýsingum, heldur hafa aldrei verið betri tækifæri til þess að brjóta á mannréttindum, jafnvel ómeðvitað, sérstaklega friðhelgi einkalífsins og tjáningarfrelsi. Þess vegna þurfum við að stíga mjög varlega til jarðar hér og íhuga alla kosti.

Það gleður mig að sama skapi að sjá að það virðist vera ríkur vilji til þess. Ég vil bara ítreka og ítreka, og ítreka enn og aftur: Ekki vanmeta friðhelgi einkalífsins. Það er aðalmálið sem við eigum að horfa á þegar kemur til þessa frumvarps.

Sem tæknimaður er ég ekki alveg fullkomlega sannfærður um ágæti leiðarinnar sem var lýst áðan, þ.e. svokallaðrar dulkóðunar. Það er væntanlega ekki dulkóðun heldur svokölluð „hössun“. Ég ætla ekki að fara út í nákvæmar tæknilegar lýsingar á því hvað allt það þýðir, en mér finnst mikilvægt að þetta komi fyrir allsherjarnefnd og að gnægð tæknimanna komi fyrir hana og útskýri hvernig hægt sé að gera þetta í sem mestu bróðerni við friðhelgi einkalífsins að því gefnu að það sé yfir höfuð hægt.

Annað sem mig langar að vekja athygli á er að mér sýnist í fljótu bragði við að lesa þetta allt saman að það reyni á hugbúnaðargerð við útfærslu á þessum hugmyndum. Vil ég sérstaklega leggja það til við formenn allra nefnda sem koma til með að vinna með þetta mál að sá hugbúnaður verði opinn. Opinn hugbúnaður þýðir að kóðinn, þ.e. ferlið sem meðhöndlar upplýsingarnar, sé sýnilegur öllum. Það þýðir ekki að upplýsingarnar sem eru meðhöndlaðar séu opnar, heldur það sem er gert við þær. Það eitt og sér væri gríðarleg málsbót vegna þess að þá geta „akademónarnir“, og nördar eins og ég, ritrýnt þessar aðferðir og séð strax ef eitthvað er ekki alveg nógu gott.

Annað sem mér finnst mjög óþægilegt við þetta er það að ég sé hvergi beina faglega ábyrgð á því að þessum gögnum sé haldið til haga. Hér hefur verið sagt nokkrum sinnum að þessi gögn megi aldrei leka, núll sinnum, aldrei nokkurn tímann. Þá þykir mér við hæfi að í það minnsta sé mjög rík ábyrgð á bak við að passa að það gerist núll sinnum. Aldrei. Ótrúlegir hlutir gerast. Þetta má gerast núll sinnum. Að leka þessum upplýsingum, eins og þær birtast hér, er að leka öllum fjárhagsupplýsingum um alla Íslendinga. Það er erfitt að ýkja afleiðingar slíks, a.m.k. ef þetta er réttur skilningur hjá mér. En eins og ég segi, leiðrétti mig hver sem betur getur.

Síðast en ekki síst skulum við muna að friðhelgi einkalífsins er, eins og önnur borgararéttindi, ekki leyfi yfirvalda. Það er ekki eitthvað sem yfirvöld gefa þegnum sínum. Það eru réttindi sem við höfum og yfirvöld mega ekki taka burt frá okkur. Neyðin til þess að brjóta á borgararéttindum þarf að vera slík að hún sé til verndar öðrum borgararéttindum.

Nú er mikilvægt að laga ýmislegt í efnahagnum, taka á skuldamálum heimilanna og svo framvegis, en gleymum ekki að friðhelgi einkalífsins er réttur, hann er ekki leyfi, hann er ekki neitt annað en algjör grundvallarréttur hvers einasta þegns, burt séð frá vilja eða hagsmunum meiri hlutans.

Að því sögðu hlakka ég til að sjá málið í nefnd og ræða það miklu betur.