142. löggjafarþing — 8. fundur,  19. júní 2013.

jafnlaunaátak og kjarasamningar.

[15:20]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Herra forseti. Ég vil byrja á að óska okkur öllum innilega til hamingju með daginn. Takk fyrir betra samfélag, kæru brautryðjendur kvenfrelsis. Takk hinar amerísku súfragettur, takk Bríet Bjarnhéðinsdóttir, takk Ingibjörg H. Bjarnason, takk Kvennalistinn, takk mamma og þið allar mæður og feður fyrir að hreinsa til.

Ég vil líka þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir að hefja máls á þessu mikilvæga efni. Eins og hv. þingmaður fór vel í gegnum eru störf kvennastétta enn þann dag í dag minna metin í íslensku samfélagi en þau störf þar sem karlar eru ráðandi. Launamismunur kynjanna er sá þáttur kynjamisréttis sem er okkur hvað mest sýnilegur. Það er vegna þess að hann er vel mælanlegur. Annað kynjamisrétti, svo sem kúgun og undirokun hvers konar, er illmælanlegt. Þetta óáþreifanlega sem er yfir og allt um kring, það er það mein sem er uppspretta gildismatsins sem við búum við.

Til að leiðrétta birtingarmynd vandans, minni laun fyrir sömu vinnu, þurfum við að taka á rót hans. Við verðum að taka til hjá okkur, vera femínísk og hugrökk; og þá helst þið, kæru karlar, og breyta þannig gildismati samfélagsins okkar. Verðum okkur sjálfum til sóma, við eigum enn nokkuð langt í land.