142. löggjafarþing — 9. fundur,  20. júní 2013.

ummæli í störfum þingsins og framhald sumarþings.

[11:08]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég er hugsi yfir þeim dagskrárlið sem var hér áðan. Hann á að fjalla um málefni líðandi stundar og það er ólíðandi þegar bent er á ákveðna þingmenn eða ábyrgðaraðila með ákveðin atriði eins og gerðist í ræðu hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur.

Ég ætla ekki að fara efnislega í ræðu hennar en ég ætla að leiðrétta nokkur atriði. Það virðist vera nýjasta tækni Samfylkingarinnar að segja nógu oft sömu röngu hlutina svo að fólk fari að trúa þeim. Fundur var boðaður í fjárlaganefnd og aðdróttanir af þessu tagi, þegar þingmenn geta ekki svarað fyrir þær blekkingar sem beitt er hér í ræðustól, vekja mig til umhugsunar um hvort ekki þurfi að endurskoða þennan dagskrárlið, Störf þingsins.