142. löggjafarþing — 9. fundur,  20. júní 2013.

staða geðheilbrigðismála barna og unglinga á Norðausturlandi.

[14:03]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Forseti. Ég vil fyrst af öllu þakka hv. þingmanni fyrir að óska eftir umræðu um þetta mikilvæga mál og vekja þar með athygli á þeirri stöðu sem uppi er í geðheilbrigðismálum á þessu svæði Norðurlandsins alls og Austurlandsins. Ég get upplýst við þetta tækifæri að ég hef átt nokkra fundi með öllum þeim aðilum sem tengjast málinu og hef m.a. fundað tvisvar með framkvæmdastjórn Sjúkrahússins á Akureyri vegna þessa. Ég hef hitt þann barna- og unglingageðlækni sem sagði upp störfum, auk þess sem ég hef rætt við og hitt aðstandendur þeirra sem notið hafa þessarar þjónustu.

Hv. þingmaður spyr um þá viðbótarfjárveitingu sem veitt var á fjárlögum þessa árs og hvernig hún hafi verið nýtt og er því til að svara að sú viðbót sem þar kom inn var nýtt á geðdeild Sjúkrahússins á Akureyri og ráðstafað þannig að ráðið var í hálft stöðugildi geðlæknis, eitt stöðugildi gæslumanns og hálft stöðugildi hjúkrunarfræðings.

Einnig var spurt um hvort þessari fjárveitingu hafi að einhverju leyti verið ráðstafað til greiðslu ferðastyrkja. Svo er ekki samkvæmt mínum bestu upplýsingum þar sem þess gerist ekki þörf, því sjúkratryggðir geta átt rétt á greiðslu ferðakostnaðar ef þjónustan er ekki í boði í heimabyggð, þannig eru reglur Sjúkratrygginga Íslands sem sjá um greiðslu ferðakostnaðar. Það er gert á grundvelli reglugerðar um ferðakostnað sjúklinga innan lands, nr. 871/2004. Þannig á þetta sér stað og ágætt að upplýsa það hér að læknir í heimahéraði sækir um ferðakostnaðinn á þar til gerðu eyðublaði

Eftir að þessi staða kom upp að barna- og unglingageðlæknirinn hætti störfum skapaðist réttur til greiðslu ferðakostnaðar vegna geðvandamála barna og unglinga. Sjúkratryggingar Íslands hafa frá þeim tíma tekið þátt í kostnaði vegna nokkurs fjölda ferða af þeim sökum, í það minnsta herma mínar upplýsingar það.

Varðandi fjarþjónustuna er því til að svara að enn sem komið er er lítil reynsla af notkun fjarfundabúnaðar í þeim tilvikum sem hér falla undir og hv. þingmaður vísar til. Hins vegar er mikil og góð reynsla af notkun fjarfundabúnaðar á Sjúkrahúsinu á Akureyri og raunar fleiri heilbrigðisstofnunum. Að sjálfsögðu er þetta atriði sem vert er að skoða ef ekki finnast aðrar lausnir.

Ég tel þó engu að síður skylt að upplýsa við þessa umræðu að Sjúkrahúsið á Akureyri hefur nú þegar reynt að mæta eftir sínum leiðum með viðeigandi aðgerðum þeirri þörf sem er fyrir þjónustu fyrir börn og unglinga með geðraskanir eftir uppsögn viðkomandi sérfræðings, og raunar sálfræðingsins líka, á barna- og unglingageðdeild. Sjúkrahúsið hefur í tvígang auglýst eftir geðlækni. Umsóknarfresturinn í síðari auglýsingu rennur út 6. júlí nk.

Sjúkrahúsið hefur einnig ráðið í stöðu sálfræðings að undangenginni auglýsingu. Sá sálfræðingur hóf störf 1. júní og vinnur í samvinnu við barnadeild og geðdeild og er bæði með reynslu og menntun í vandamálum barna og unglinga. Haldnir eru þverfaglegir samráðsfundir með fulltrúum geðlækna, barnalækna, svæfinga- og gjörgæslulækna, forstöðulækni slysa- og bráðamóttöku um verklag við móttöku bráðatilfella barna og unglinga með geðraskanir. Sérstaklega er hugað að sjálfsvígstilraunum í því efni. Sömuleiðis hefur sjúkrahúsið átt samráð við heilsugæsluna á Akureyri um verklag við endurnýjun lyfja fyrir börn og unglinga með atferlisraskanir.

Það ber einnig að nefna að mikið og gott samráð er við barna- og unglingageðdeild Landspítala sem á að miða að því að tryggja að börn og unglingar með geðraskanir í heilbrigðisumdæminu fyrir norðan og austan fái sams konar þjónustu og aðrir landsmenn. Það er nokkuð ljóst af þeim upplýsingum sem ég hef undir höndum að gefa þarf þessum málaflokki betri gaum, ekki síst þegar maður horfir á það hvernig fagmenntað fólk á þessu sviði raðast eftir landsvæðum. Ég kem kannski að því nánar í síðara svari mínu.