142. löggjafarþing — 10. fundur,  21. júní 2013.

meðferð einkamála.

2. mál
[12:50]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Að mörgu er að hyggja í þessu efni og ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Eftir því sem maður rýnir þetta betur má kannski segja að efasemdunum fjölgi frekar en hitt og einmitt um það að frumvarpið er í raun kannski ekki til þess fallið að breyta neinu, eins og ég raunar hef rætt hér, heldur er það líka svo vanbúið til þess að leysa úr þeirri óvissu sem er fyrir hendi.

Eins og við ræddum um áðan, flýtimeðferðin í sjálfu sér setur nefnilega ekki bara þrýsting á dómarana. Hún setur líka þrýsting á málsaðila og það er svo alvarlegt í þessu efni, þ.e. stefnandinn sjálfur og lögmaður hans verða fyrir þrýstingi í þeim efnum að þeim beri að flýta verkefnum sínum, það vekur að minnsta kosti ákveðnar vangaveltur um hvort það sé málinu til góðs að tímafaktorinn einn og sér sé látinn gilda svo ríkulega í þessum málum.

Hv. þingmaður velti líka upp stöðu dómstólanna og mikilvægi þess að dómstólarnir fái þann mannafla sem til þarf ef eitthvert bit er í frumvarpinu, sem efasemdir eru um, þ.e. ef raunveruleg breyting mun verða á þá telja dómstólarnir að þeir þurfi meiri mannafla og meira fjármagn. Ég tel að við þurfum að tryggja að þeim vilja verði þá fylgt eftir við gerð fjárlaga fyrir árið 2014.