142. löggjafarþing — 10. fundur,  21. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[16:24]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er óhætt að taka undir með hv. þingmanni að lýst er eftir Framsóknarflokknum. Flokkurinn náði glæsilegri kosningu í alþingiskosningum í lok aprílmánaðar sl. og eðlilegt kannski að hann láti svo lítið að senda hingað einn og einn fulltrúa til að flytja mál sitt við þessa umræðu.

Framsóknarflokkurinn átti talsverða sögu í útvarpsráði um að ganga þar ekki alltaf erinda Sjálfstæðisflokksins heldur taka oft og einatt sjálfstæða afstöðu, ekki síst þegar fulltrúi þeirra var Gissur Pétursson, núverandi forstjóri Vinnumálastofnunar. Margir þekkja þá sögu.

Ég vildi spyrja hv. þingmann hvort ekkert hefði komið fram í umfjöllun nefndarinnar því að Framsóknarflokkurinn hlýtur að hafa verið viðstaddur umfjöllun nefndarinnar. Hvað veldur því að stjórnmálaflokkur sem stendur að lagabreytingum fyrir örfáum vikum er kominn hingað svo skömmu síðar, sama fólk og sami flokkur, og ætlar að samþykkja lagaákvæði sem ganga þvert gegn því sem hann ákvað þá? Tók ekki einhver fulltrúi Framsóknarflokksins þátt í störfum nefndarinnar og gerði grein fyrir því hvaða sinnaskipti væru hér á ferð eða eru kannski ólík sjónarmið uppi í þeim ágæta flokki? Ég bið hv. þingmann forláts á því að vera að spyrja hana en þar sem þingmenn Framsóknarflokksins fást ekki til þess að svara hér við umræðuna þá er eina leiðin að spyrja um umræður í nefndinni sem hljóta að hafa verið einhverjar.