142. löggjafarþing — 11. fundur,  24. júní 2013.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

1. mál
[15:31]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur fyrir spurningarnar. Þær kannanir sem hún vísar til eru almennt þekktar, alla vega kannast ég við þær. Það er ljóst að útlendingar koma hingað til að njóta náttúrunnar en þeir gera það ekki fyrir hvað sem er. Ég hugsa að ef við hækkuðum skattinn verulega færi að draga úr viljanum til að koma til Íslands þó að menn vilji skoða náttúruna. Menn vilja kannski fara til Parísar til að sjá allar menningarminjarnar sem þar eru en ekki fyrir hvaða verð sem er. Eitt er að spyrja hverju menn sækjast eftir á Íslandi og annað að spyrja hvað valdi því að menn velja Ísland umfram önnur lönd, flest lönd hafa jú upp á eitthvað að bjóða.

Fram kom í 1. umr. hjá hv. þingmanni, og talar hún þar af reynslu sinni sem ráðherra, að einungis 10% af útgjöldum ferðamanna eru fyrir gistingu. Það segir mér að 90% eru annars staðar, eitthvað er í ferðum sem ekki er skattlagt. Annað er þá innlendur kostnaður sem ég er ekki með upplýsingar um. En þar fær ríkissjóður hins vegar vörugjöld, virðisaukaskatt, tolla o.s.frv. Ríkissjóður kynni því að hagnast á því að enn meiri aukning verði á ferðaþjónustu, sérstaklega yfir vetrartímann þar sem menn eru að stefna á að nýta alla aðstöðu betur. Ef tekst að nýta aðstöðuna betur og ná fram enn meiri aukningu en ella væri að óbreyttum lögum fengi ríkissjóður það margfalt inn í öðrum sköttum.