142. löggjafarþing — 16. fundur,  28. júní 2013.

endurskoðun fjárreiðulaga.

[10:54]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og fagna því að líkur séu á að sú vandaða vinna sem unnin var á síðasta kjörtímabili verði lögð til grundvallar.

Nú er það svo að nánast öll frumvörp sem lögð hafa verið fram á yfirstandandi sumarþingi leiðir okkur lengra í burtu frá því markmiði að stöðva skuldasöfnun ríkissjóðs og ná heildarjöfnuði. Ákvarðanir sem ný ríkisstjórn hefur tekið í ríkisfjármálum virðast ekki vera byggðar á þeim gildum sem drög að frumvarpi um breytingar á fjárreiðulögum byggir á.

Telur hæstv. ráðherra að pólitískur vilji sé fyrir hendi í hæstv. ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar til að fylgja reglum sem byggja á gildum er varða ríkisfjármálin, og ég fór yfir áðan? Það þýðir um leið að þær breytingar sem yrðu gerðar á ríkisfjármálaáætlun hafi ekki neikvæð áhrif á tekjujöfnuð ríkissjóðs eða auki skuldbindingar hans.