142. löggjafarþing — 16. fundur,  28. júní 2013.

lengd þingfundar.

[11:09]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég hlýt að gera athugasemd við að efna til kvöldfundar. Það er alveg hárrétt sem hér hefur komið fram að í gær sátu formenn stjórnmálaflokkanna á fundi einmitt til að ræða hvernig ætti að haga þinglokum. Þar voru umræður í góðu samkomulagi og búið að boða annan fund kl. 12 — og þá á að fara að efna til kvöldfundar á föstudegi. Mér finnst þetta mjög sérkennilegt í ljósi þess að hér hefur þingfundum lokið klukkan tvö, þrjú, fjögur á daginn. Hér hefur ekki verið málþóf um nokkurt mál.

Mér finnst ekkert athugavert við að halda áfram þingfundum í næstu viku, hreint ekki neitt. Hér stendur yfir sumarþing. Það fór seint af stað og ekkert óeðlilegt við að það standi fram í júlí. Hins vegar er mjög sérkennilegt að koma fram á föstudegi og ætla að halda kvöldfund á föstudegi og jafnvel fund á laugardegi í ljósi þess að hér eru engar óvenjulegar kringumstæður. Hér er bara verið að ræða málin algerlega á eðlilegum nótum og mér finnst þetta sérkennileg tilhögun.