142. löggjafarþing — 16. fundur,  28. júní 2013.

aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi.

9. mál
[11:15]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Sú þingsályktunartillaga sem kemur hér til atkvæða er nokkuð óljós og það skortir mikið á skýrleikann í henni. Þess vegna leggjum við fram nokkrar breytingartillögur sem eiga að gefa stjórnarmeirihlutanum færi á því að senda skýrari skilaboð til þeirra mýmörgu sérfræðinefnda sem ætlunin er að setja á fót.

Við leggjum líka fram breytingartillögur til að taka á þeim eyðum sem eru í tillögunni, svo sem um réttarstöðu lánsveðshópsins sem ríkisstjórnin virðist engan áhuga hafa á að bæta úr. Jafnframt leggjum við til breytingartillögu sem hefur að markmiði að tryggja áfram þverpólitískt samstarf um skuldamál heimilanna. Það er undarlegt ef afstaða þessarar ríkisstjórnar er að taka flokkspólitíska ábyrgð á skuldamálunum og ýta öðrum stjórnmálaflokkum frá við vinnu að tillögugerð um skynsamlegar lausnir í skuldamálum heimilanna.