142. löggjafarþing — 16. fundur,  28. júní 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

11. mál
[13:46]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi ræðu minnar benda, eins og hv. þm. Guðbjartur Hannesson, á forgangsröðun ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Forgangsmálin sem sett eru hér og rædd og áhersla er lögð á inn í sumarþingið, sem átti að verða stutt og með þægilegum samstöðumálum, eru öll í þá átt að hygla sérhagsmunahópum, sem hafa þó nægilegt fyrir, og herða pólitísk tök á Ríkisútvarpinu.

Við erum að tala um það að fyrsta mál hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra var að afsala sér tekjum af neysluskatti á útlendingum, útlendum ferðamönnum sem hér fjölgar ákaflega mikið og þannig að mikill kostnaður fylgir þeim. Það er ekki ástæða til þess að ívilna sérstaklega erlendum ferðamönnum í þeirri stöðu sem ríkissjóður er í. Útgerðarmennirnir eru í alveg einstakri stöðu þeirrar greinar þar sem arðurinn hefur aldrei verið meiri og þá er þeim gefinn afsláttur af gjaldi sem þeir ættu að greiða fyrir sérleyfið sem þeir hafa til þess að nýta auðlindir þjóðarinnar. Svo er það fyrsta og eina mál hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra sem er að herða pólitísk tök á Ríkisútvarpinu. Er nema von að það fari um mann hrollur, hæstv. forseti, þegar svona ákveðin skref í átt til mikillar hægri stjórnar eru stigin strax í upphafi starfsferils þessarar ríkisstjórnar?

Með lögum um Ríkisútvarpið sem samþykkt voru fyrr á þessu ári eftir margra ára undirbúning og samráð voru gerðar margþættar breytingar og lögð megináhersla á hlutverk Ríkisútvarpsins sem fjölmiðils í almannaþágu. Í markmiðsákvæði er tiltekið að lögunum sé ætlað að stuðla að lýðræðislegri umræðu, menningarlegri fjölbreytni og félagslegri samheldni. Það er vísað í ákveðin siðferðisgildi sem Ríkisútvarpið skuli hafa í heiðri, svo sem fagmennsku, heiðarleika og virðingu, auk þess sem áhersla skuli lögð á rækt við íslenska tungu, sögu og menningu þjóðarinnar.

Í gildandi lögum er fjallað bæði um lýðræðishlutverk Ríkisútvarpsins og menningarlegt hlutverk þess. Talsverðar breytingar voru gerðar með lögunum á stjórn Ríkisútvarpsins og veigamest er sú tillaga að taka upp armslengdarfjarlægð frá löggjafarvaldinu gagnvart beinni skipan í stjórn Ríkisútvarpsins. Fyrirkomulagið er með þeim hætti að hv. allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis skipar þrjá fulltrúa af fimm í sérstaka valnefnd sem koma með tilnefningar um hverjir skuli skipa stjórn Ríkisútvarpsins þannig að tekið verði fyrir það fyrirkomulag að stjórnarmenn séu skipaðir beint með samþykki Alþingis og tilnefningu flokka. Það er einmitt það fyrirkomulag sem verið er að festa í sessi og er forgangsmál hæstv. ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Þar með er horfið aftur til fortíðar.

Markmiðið með fyrirkomulagi eins og það er í núgildandi lögum er að armslengdarfjarlægð sé á milli hins pólitíska valds og Ríkisútvarpsins svo sem kostur er. Eins og ég sagði áðan er það forgangsmál hæstv. ríkisstjórnar að hverfa frá þessu. Auðvitað spyrja menn sig: Hvernig stendur á því? Hvers vegna er svona mikil áhersla lögð á þetta?

Ég vil vitna í orð Skúla Helgasonar, sem var talsmaður málsins innan hv. allsherjar- og menntamálanefndar, þegar hann kvaddi sér hljóðs um atkvæðagreiðslu þess frumvarps. Þar sagði Skúli Helgason, með leyfi forseta:

„Það var góð samstaða um þetta mál í allsherjar- og menntamálanefnd, fulltrúar allra flokka nema Sjálfstæðisflokksins standa að áliti meiri hlutans. Afstaða Sjálfstæðisflokksins vekur að einhverju leyti furðu í ljósi þess að þarna er verið að auka samkeppni á íslenskum fjölmiðlamarkaði. Skýringin liggur kannski ljós fyrir eftir landsfund þess ágæta flokks sem haldinn var um helgina, en þar er ályktað í landsfundardrögum að Ríkisútvarpið verði lagt niður í núverandi mynd. Það er sjónarhorn frjálshyggjunnar. Við jafnaðarmenn styðjum öflugt, faglegt ríkisútvarp á fjölbreyttum fjölmiðlamarkaði.“ Síðan þakkaði Skúli Helgason nefndarmönnum fyrir góða vinnu.

Þarna kemur fram eins og kunnugt er að framsóknarmenn studdu ný lög um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu, en þeir taka hins vegar ekki þátt í þessari umræðu sem hér hefur staðið á sumarþingi um breytingar á þeim lögum.

Allar þær umsagnir sem nú var verið að fara yfir vegna þessarar breytingar sem hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra leggur til voru ekki jákvæðar, svo vægt sé til orða tekið. Það kemur fram í nefndaráliti minni hluta hv. allsherjar- og menntamálanefndar að í ályktun stjórnar Bandalags íslenskra listamanna er fyrirliggjandi frumvarp gagnrýnt og bent á að með því „yrði horfið frá þeirri mikilvægu breytingu að skapa fjarlægð við hið pólitíska vald á Alþingi. Þess í stað yrðu pólitísk tengsl stjórnarmanna fest í sessi með afgerandi hætti þar sem þeim væri ætlað að endurspegla valdahlutföllin á Alþingi. Slíkt væri mikil öfugþróun og í hróplegu ósamræmi við það sem tíðkast í nágrannalöndum okkar“.

Í gildandi lögum er kveðið á um að starfsmenn Ríkisútvarpsins tilnefni einn stjórnarmann stofnunarinnar. Nú hefur borist breytingartillaga sem vissulega er til bóta og gengur út á það að fulltrúi starfsmanna hafi seturétt á fundum en ekki atkvæðisrétt. Hann má taka til máls og koma með tillögur.

Víða á Norðurlöndum sitja fulltrúar starfsmanna í stjórnum ríkisútvarpsstöðva og það er talið stuðla að auknu lýðræði innan stofnananna og gera starfsmenn ábyrgari fyrir starfseminni. Það er ámælisvert að þessi réttur starfsmanna sé af þeim tekinn með því frumvarpi sem hér liggur fyrir þó að jákvætt skref sé stigið með breytingartillögunni hvað þetta varðar. Rétturinn hefur mikla þýðingu og er talinn stuðla að auknu lýðræði innan stofnana og ábyrgð starfsmanna og getur einnig aukið starfsánægju sem aftur er svo mikilvæg forsenda þess að árangur náist í starfi.

Ákvæði laganna um skipan valnefndar var ætlað að tryggja að í stjórn veldust einstaklingar með nauðsynlega þekkingu á þeim málefnum sem samkvæmt markmiðsákvæði laganna eru helstu verkefni Ríkisútvarpsins. Ef horfið er frá því fyrirkomulagi er horfið frá eftirsóknarverðri aðferð við val stjórnarmanna sem byggist á valddreifingu í þágu almannahagsmuna. Í gildandi lögum er hlutverk stjórnar Ríkisútvarpsins talsvert víðfeðmara en samkvæmt eldri lögum. Þetta finnst mér skipta mjög miklu máli þegar við erum að fjalla um þær breytingar sem lagðar eru hér til vegna þess að með nýjum lögum um Ríkisútvarpið fær stjórnin aukin völd og áhrif og þar eru möguleikar stjórnar Ríkisútvarpsins til að hafa áhrif á dagskrárlega þætti, innihald og efnislega umfjöllun stofnunarinnar enda gert ráð fyrir breyttri skipan stjórnar þar sem fagleg sjónarmið yrðu höfð að leiðarljósi.

Með breytingunum á lögunum sem boðaðar eru með því frumvarpi sem við erum að ræða hér er vægi pólitískra þátta við skipan stjórnar aukið með því að færa hana aftur í þann pólitíska farveg sem víkja átti frá. Sú breytta skipan stjórnar gefur almenningi tilefni til að efast um hlutlægni Ríkisútvarpsins og getur þannig dregið úr trausti á að upplýsingar fjölmiðilsins séu áreiðanlegar og umfjöllun hans hlutlæg. Það er alvarlegt mál vegna þess að eftir stórkostlegt efnahagshrun féll ekki aðeins traustið á fjármálastofnunum heldur einnig á Alþingi, stjórnmálamönnum, fjölmiðlum og jafnvel helstu stofnunum landsins. Í stað þess að rýra traust ríkisfjölmiðilsins hefði átt að styrkja stöðu hans, taka armslengdina frá pólitíkinni og efla traust fólksins í landinu á þessari mikilvægu stofnun sem sinnir almannahagsmunum og er almannaþjónustumiðill.

Í þessu ljósi var líka lögð mikil áhersla á það, sem og í umræðunni á undanförnum árum, að færa og minnka flokkspólitísk áhrif í stjórnum ríkisstofnana almennt, ekki aðeins í Ríkisútvarpinu. Það er sérstaklega mikilvægt að gæta faglegs og pólitísks sjálfstæðis Ríkisútvarpsins í daglegum rekstri og dagskrárgerð og að almenningi sé ljóst að það sé gert. En því miður er verið að fara í þveröfuga átt.

Samkvæmt gildandi ákvæðum laganna skal valnefndin við tilnefningu stjórnarmanna hafa hagsmuni Ríkisútvarpsins að leiðarljósi og að meðal stjórnarmanna sé einnig meðal annars þekking og reynsla af fjölmiðlun, menningarmálum, nýjum miðlum á hverjum tíma, rekstri og stjórnun fyrirtækja. Þá á valnefndin að gæta að jafnrétti kynjanna í tilnefningum sínum. Þetta ákvæði er fellt brott í fyrirliggjandi frumvarpi og því engin trygging fyrir því að til stjórnarsetu veljist fólk sem hafi fullnægjandi þekkingu á þeim sviðum sem varða rekstur og starfsemi Ríkisútvarpsins sem og menningarmarkmiðum og verkefnum þess.

Þar með er aukin hætta á því að í stjórnina veljist fólk sem hefur ekki þetta faglega hæfi og þá um leið er sköpuð óvissa um að markmiðið með lögunum nái fram að ganga. Þegar búið er að taka skipan stjórnarinnar svona úr samhengi við meginmarkmið laganna er það ekki nægilega gott. Ég minni enn á hversu mikilvægt er að almenningur hafi traust á þessari mikilvægu stofnun.

Það þarf ekki að líta langt til að sjá góðar fyrirmyndir í þessum efnum í nágrannalöndunum. Þar gera menn sér grein fyrir því að það þarf að tryggja þessa armslengd frá stjórnmálum að ríkisfjölmiðlinum og gera það með ýmsum hætti til að verja hag almennings og skapa traust á ríkisfjölmiðlinum í almannaþágu.

Virðulegi forseti. Hæstv. ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hverfur í aðra átt og aftur í tímann hvað þetta varðar.